„Stefnumótaþjálfaranum“ Julien Blanc verður meinað að koma til Bretlands til að halda námskeið í hvernig tæla eigi konur. Þessu greinir BBC frá og einnig er fjallað um málið á vef Sky News. BBC segist hafa heimildir fyrir því að innanríkisráðuneyti Bretlands hafi tekið þessa ákvörðun.
Yfir 150 þúsund manns höfðu skrifað undir áskorun á bresk stjórnvöld um að veita Blanc ekki vegabréfaáritun vegna námskeiða hans sem þykja hvetja til niðrandi og jafnvel ofbeldisfullrar hegðunnar gagnvart konum.
Á vefsíðu sinni Pimping My Game lýsir Blanc aðferðum sínum við að ná til kvenna. „Þær eru móðgandi, þær eru óviðeigandi, þær skilja eftir ör á sálinni en þær eru andskoti áhrifaríkar“
Með því að meina Blanc að heimsækja landið feta bresk yfirvöld í fótspor ástralskra yfirvalda sem drógu vegabréfaáritun Blanc til baka í kjölfar mikils þrýstings frá mótmælendum.
Í morgun bætti fyrirtækið Real Social Dynamics, sem stendur fyrir komu „stefnumótaþjálfarans“ Julien Blanc til Íslands næsta sumar, við ókeypis námskeiði í Reykjavík í hvernig taka eigi konur á löpp.
Þegar þetta er skrifað hafa yfir 9.800 manns skrifað undir áskorun á íslensk stjórnvöld um að hleypa Blanc ekki til landsins.
Tengdar fréttir:
Bætt við ókeypis daðursnámskeiði
„Borgaðu mér og nauðgaðu þeim öllum“
Iceland says stop Julien Blanc