„Mín próf munu fara fram“

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði. mbl.is/ Ómar

Nemendur í stjórnmálaheimspeki við Háskóla Íslands munu taka lokapróf í námskeiðinu þann 9. desember, hvort sem af verkfalli prófessora verður eða ekki. Þetta kemur fram í tölvupósti sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskólans sendi nemendum í námskeiðinu á mánudag.

„Ég hef þegar samið prófið og komið því til réttra aðila. Ég verð við rannsóknir erlendis í desember eins og undanfarin ár. Prófið er í tölvuveri, svo að ég fæ úrlausnir sendar rafrænt út. Enginn félagi í Prófessorafélaginu kemur nálægt neinu í þessu ferli. Það er því eðlilegt og við því að búast, að prófið fari fram á réttum tíma þrátt fyrir hugsanlegt verkfall prófessora,“ segir í tölvupóstinum.

Í samtali við mbl.is sagði Hannes að hann teldi ekki að í þessum ráðstöfunum fælist verkfallsbrot nema ef hann byrjaði að fara yfir úrlausnirnar fyrir miðnætti 15. desember þegar verkfallinu lýkur.

 „Þetta er engin breyting á prófafyrirkomulaginu hjá mér. Svona hefur þetta verið síðustu ár svo mín próf munu fara fram, það er ekkert verkfallsbrot,“ segir Hannes og bætir við að ef samkennarar hans hyggist koma í veg fyrir það séu það þeir sem í raun brjóti reglur.

Í fyrrnefndum tölvupósti dregur Hannes í efa að prófessorar geti í raun farið í verkfall.
„Ég verð að bæta því við, að okkur prófessorum er greitt fyrir að hugsa, grufla, grúska, rannsaka, uppgötva. Þeir, sem telja, að hægt sé að fara í verkfall við það, sýna aðeins, að þeir hafa aldrei byrjað á því sjálfir, sem þeir vilja stöðva,“ skrifaði Hannes í tölvupóstinum.

Hann staðfestir þetta viðhorf sitt í samtali við mbl.is og lýsir sig jafnframt andsnúinn fyrirhuguðum verkfallsaðgerðum. 

„Ég held að þetta sé algjör óþarfi, þeir sem vilja hærri laun en þau sem eru borguð í háskólanum eiga bara að finna sér önnur störf, t.d. á alþjóðavettvangi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert