„Við heyrum sífellt fleiri dæmi af uppsögn starfsfólks við ræstingar og útboðum í kjölfarið. Nýjasta dæmið er útboð ráðuneytanna. Þá hreppa oftast hnossið stór fyrirtæki með fjölda starfsmanna, sem virðast gera út á að borga eins lítið og kostur er í laun. Sérstakt áhyggjuefni er ef þau gera út á að nýta sér þekkingarskort starfsmanna af erlendum uppruna á umsömdum réttindum sem þeir eiga að njóta á íslenskum vinnumarkaði.“
Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni í dag. Tilefnið er frétt mbl.is í morgun um að fulltrúa stéttarfélagsins Eflingar hafi verið meinað að sitja fund sem tólf pólskir starfsmenn ræstingafyrirtækis óskuðu eftir en þeir vinna við ræstingar á Landspítalanum. Þeir vildu hafa fulltrúa félagsins viðstaddan en á það var ekki fallist. Greint var frá málinu á vefsíðu Eflingar og hrósar Árni félaginu fyrir að standa vaktina.
„Svona á verkalýðshreyfingin að vinna. Við eigum öll mikið undir því að óprúttnir atvinnurekendur nái ekki grafa undan launastiginu í landinu með því að blekkja saklaust fólk til að vinna á of lágum launum,“ segir hann. Það eina sem vanti í frásögn Eflingar segir hann vera nafn fyrirtækisins „sem fer fram þessum ógeðfellda hætti.“
„Svona skrattakollar eiga að þurfa að standa fyrir sínu undir nafni. Mun þetta nafnlausa fyrirtæki bjóða í ræstingar hjá stjórnarráðinu? Hvernig verða útboðsskilmálar útbúnir til að tryggja að svona hegðun verði ekki ekki liðin þegar ríkið kaupir ræstingar?“