Tölvukerfi Landspítalans hrundi

mbl.is/Ómar

Alvarleg bilun varð í miðlægu tölvukerfi Landspítalans um klukkan 16 í dag. Um er að ræða bilun í diskastæðum sem hefur áhrif á allt tölvukerfi sjúkrahússins, þar á meðal klínísk kerfi. Heimasíða LSH liggur m.a. niðri.

Jón Baldvin Halldórsson, upplýsingafulltrúi LSH, segir í samtali við mbl.is, að viðgerð standi yfir og vonast menn til að kerfið komist í samt lag sem fyrst. „Það er unnið að fullum krafti,“ segir Jón og bætir við að bilunin sé alvarleg og hafi víðtæk áhrif.

Hann segir að búið sé að virkja viðbragðsáætlun innan upplýsingatæknisviðs spítalans. Einnig klínískar viðbragðsáætlanir á deildum. „Það er allt komið í gang,“ segir Jón.

„Það er bara meira og minna öll tölvukerfin sem þetta hefur áhrif á.“

Aðspurður segist Jón ekki hafa upplýsingar um hvaða áhrif bilunin hefur haft á sjúklinga. 

Uppfært 17:25

Jón segir að einhver kerfi séu komin í gagnið aftur, en unnið er að því að endurræsa allt kerfið. Vonir standa til að kerfið verið komið í samt lag eftir nokkrar mínútur. Bilunin hefur a.m.k. staðið yfir í rúma klukkustund. „Þetta er náttúrulega háalvarlegt,“ segir Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert