Um eina og hálfa klukkustund tók að komast fyrir alvarlega bilun sem varð í tölvubúnaði Landspítalans og koma tölvukerfunum aftur í gang.
Bilunin varð í tölvubúnaði um kl. 16 og hafði áhrif meira eða minna á öll tölvukerfi spítalans, þar með talin klínísk kerfi þar sem skráðar eru upplýsingar um sjúklinga.
Bilun varð í aðal diskastæðum spítalans sem hýsa gögn fyrir öll helstu tölvukerfin, sem þar með urðu óstarfhæf.
Um leið og ljóst varð hversu bilunin var alvarleg virkjaði heilbrigðis- og upplýsingatæknisdeild Landspítala viðbragðsáætlun sína. Jafnframt voru virkjaðar viðbragðsáætlanir á sjúkradeildum sem tilgreina verklag þegar tölvukerfin verða óstarfhæf.
Tölvukerfi Landspítalans hrundi