Verjendur ellefu sakborninga í verðsamráðsmálinu svokallaða lögðu fram greinargerðir við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Alls eru þrettán ákærðir í málinu, sem sérstakur saksóknari höfðaði á hendur starfsmanna Húsasmiðjunnar, Byko og Úlfsins byggingavara í maí sl. vegna gruns um verðsamráð. Sakborningarnir neituðu allir sök í málinu þann 22. maí sl.
Ein frávísunarkrafa var lögð fram í dag, og verður hún tekin fyrir þann 4. desember nk. Þá verður tveimur verjendum sem ekki lögðu fram greinagerð í dag gefinn frestur til 14. janúar nk. þegar næsta fyrirtaka í málinu fer fram.
Fyrirhuguð aðalmeðferð í málinu mun hefjast þann 11. febrúar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Vegna fjölda sakborninga er ekki hægt að reka málið í Héraðsdómi Reykjaness, og mun aðalmeðferðin því fara fram í dómsal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málið, sem var í rannsókn í rúm þrjú ár, er gríðarlega umfangsmikið og skjalafjöldinn tæplega fimm þúsund blaðsíður. Rannsóknin hófst í mars 2011 þegar Samkeppniseftirlitið og efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra framkvæmdu húsleitir hjá Byko, Húsasmiðjunni og Úlfinum - byggingarvörum.
Í fyrstu voru 19 manns handteknir en þeim sleppt að lokum yfirheyrslum. Rúmri viku síðar voru 15 manns handteknir og færðir til frekari yfirheyrslu. Loks voru þrettán ákærðir. Aðrir sem handteknir voru eru þó hugsanleg vitni í málinu að sögn sérstaks saksóknara. Sönnunargögn í málinu eru meðal annars tölvupóstar og símtöl á milli starfsmanna.