Áttu að fá hálfa milljón fyrir verkið

Þegar að lögreglu bar að garði var bíllinn alelda.
Þegar að lögreglu bar að garði var bíllinn alelda. Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem grunaður er um að hafa kveikt í bifreið á Akureyri í síðustu viku. Manninum er gert að sæta gæsluvarðhaldi til 17. desember.

Í úrskurð Héraðsdóms Reykjaness er vitnað í greinargerð lögreglustjóra sem segir að að um klukkan hálf fimm að morgni miðvikudagsins 12. nóvember hafi lögreglan á Akureyri fengið tilkynningu um að eldur lofaði í bifreið. Sagt er frá því að þegar að lögregla kom á vettvang hafi logað mikill eldur í bifreiðinni. Sáu lögreglumenn bjórflösku fyrir aftan bifreiðina en búið hafi verið að troða fataefni ofan í flöskuna. Var þetta því eins og svokallaður „molotov“ kokteill. Samkvæmt greinargerð lögreglunnar vaknaði strax upp grunur að um íkveikju væri að ræða.

Eigandi bifreiðarinnar sem kveikt var í sagðist hafa verið vakinn upp um þrjúleytið sömu nótt og þá hafi verið grímuklæddur maður fyrir utan. Hafði hann sagt manninum að koma sér í burtu. Nokkuð seinna vaknaði eigandi bílsins við mikinn hávaða og sá að búið vera að kveikja í bifreið hans. 

Um kvöldið var ákærði og annar maður handteknir grunaðir um aðild að málinu. Þeir viðurkenndu glæp sinn við yfirheyrslu en sögðu báðir að annar aðili hafi beðið þá um að ganga í skrokk á eiganda bílsins. Hafi þeir átt að fá um hálfa milljón króna fyrir verkið, eða allt eftir því hversu mikið þeir slösuðu manninn.

Samkvæmt greinargerð lögreglu hefur ákærði margsinnis komið við sögu lögreglu meðal annars vegna líkamsárásar, fíkniefnabrota, umferðalagabrota og líflátshótanna. 

Dóm Hæstaréttar í heild sinni má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert