„Skjólstæðingur minn er í ákveðnum vanda við að reyna að finna ætlað fórnarlamb í ætluðum umboðssvikum,“ sagði verjandi Guðmundar Ólasonar, fyrrverandi forstjóra Milestone, á fimmta degi aðalmeðferðar yfir honum, fleiri stjórnendum Milestone og þremur endurskoðendum KPMG.
Í málinu eru Guðmundur, Karl Wernersson, fv. stjórnarformaður, og Steingrímur Wernerson, fv. stjórnarmaður, ákærðir fyrir umboðssvik vegna greiðslna til Ingunnar Wernersdóttur fyrir hluti hennar í Milestone, Milestone Import Export og Leiftra en þær námu á sjötta milljarð króna á árunum 2006 og 2007.
Jafnframt eru endurskoðendurnir Hrafnhildur Fanngeirsdóttir, Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór Charles Guðmundsson, öll frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG, ákærð fyrir brot gegn lögum um endurskoðendur. Þau Margrét og Sigurþór eru ennfremur ákærð fyrir meiriháttar brot á lögum um ársreikninga vegna viðskiptanna.
Í gær hófst málflutningur í málinu og hefur bæði verið greint frá ræðu saksóknara og verjenda Karls og Steingríms.
Í morgun hóf Ragnar Tómas Árnason, verjandi Guðmundar, leik og benti snemma í ræðu sinni á það fyrir hvað nákvæmlega Guðmundur er ákærður og vitnaði í ákæruskjalið. Þar segir: „Ákærði Guðmundur, sem var forstjóri Milestone, tók við fyrirmælum frá stjórn félagsins um að það fjármagnaði efndir á samningum þeirra Karls og Steingríms við Ingunni og Guðmundur fylgdi þeim fyrirmælum eftir með atbeina annarra starfsmanna Milestone.“
Hann sagði því ljóst að ákæruvaldið byggði málatilbúnað sinn á því að dæma ætti Guðmund til refsingar fyrir að hafa farið að fyrirmælum stjórnar í störfum sínum sem forstjóri. „Það er byggt á því að stjórn félagsins hafi tekið þessar ákvarðanir og að hann [Guðmundur] hafi farið eftir þessum ákvörðunum. Í þessari stjórn sátu einstaklingar sem beint og óbeint áttu allt hlutafé félagsins þannig að nánar tiltekið er skjólstæðingur minn ákærður fyrir að fara að fyrirmælum stjórnar og allra eigenda félagsins. Og hann er ákærður fyrir umboðssvik, hversu skringilega sem það kann að hljóma.“
Ragnar veltir því næst fyrir sér hver sá umbjóðandi sé sem Guðmundur á að hafa svikið. „Stjórn félagsins ræður öllum almennum málefnum þess og eigendur félagsins geta leitt öll mál þess til lykta á hluthafafundi. Það skýtur því skökku við að Milestone sé umbjóðandinn sem hann á að hafa svikið þegar eigendur og stjórn félagsins hafa heimilað allt sem ákært er fyrir.“
Í kjölfarið sagði Ragnar ljóst að enginn hefði nokkru sinni haldið því fram að hann hefði verið svikinn. Ingunn hefði fengið að fullu greitt og félögin tvö sem tengjast viðskiptunum, Milestone Import Export og Leiftri, voru í 100% eigu stjórnarmanna og eigenda Milestone. „Einföld leit skjólstæðings míns að sviknum umbjóðanda hefur því engan árangur borið.“
Hann sagði saksóknara teygja hugtakið umboðssvik langt út fyrir sinn venjulega ramma með nálgun sinni í þessu máli. Viðskiptin hefðu farið fram með vilja og samþykki allra mögulegra umbjóðenda í málinu. Guðmundur hefði ekki sjálfur tekið ákvarðanir um viðskiptin heldur farið eftir þeim, fyrir utan það að umrædd viðskipti hefðui ekki verið ólögmæt.
Aðalmeðferðin heldur áfram en gert er ráð fyrir að málið verði dómtekið eftir hádegi í dag.