Endurskoðendur gátu ekki séð hrunið fyrir

Ragnar H. Hall. Fyrir aftan hann situr Karl Wernersson.
Ragnar H. Hall. Fyrir aftan hann situr Karl Wernersson. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Mönnum væri hollt að hafa í huga orð skáldsins Þórarins Eldjárn: „Það var ekki fyrr en eftir hrunið að allir sáu það fyrir“,“ sagði Ragnar H. Hall, verjandi Sigurþórs C. Guðmundssonar eins ákærða í Milestone-málinu svonefnda. Hann sagði ákæru sérstaks saksóknara byggjast á miklum misskilningi.

End­ur­skoðend­urn­ir Hrafn­hild­ur Fann­geirs­dótt­ir, Mar­grét Guðjóns­dótt­ir og Sig­urþór, öll frá end­ur­skoðun­ar­fyr­ir­tæk­inu KPMG, eru í Milestone-málinu ákærð fyr­ir brot gegn lög­um um end­ur­skoðend­ur. Þau Mar­grét og Sig­urþór eru enn­frem­ur ákærð fyr­ir meiri­hátt­ar brot á lög­um um árs­reikn­inga. Kemur ákæran til vegna kaupa Karls og Steingríms Wernerssona á öllum hlutum Ingunnar systur þeirra í Milestone, Milestone Import Export og Leiftra en samningar þess efnis voru undirritaðir í desember 2005.

KPMG sá um að færa ársreikning Milestone árin 2006 og 2007 en þau ár greiddi félagið Ingunni 5,2 milljarða króna vegna kaupanna á hlutafénu. Í sakamálinu er meðal annars deilt um hvernig þau viðskipti voru færð í bókhaldi félaganna þriggja, þ.e. Milestone, Milestone Import Export og Leiftra.

Könnuðu ekki áhrif meintra annmarka

Í lögum um ársreikninga segir að ársreikningur skuli gefa glögga mynd af afkomu, efnahag og breytingu á handbæru fé. Endurskoðun er háð takmörkunum og þar af leiðandi gefur hún ekki fullvissu um að ársreikningurinn sé að öllu leyti réttur. Það er þó markmið endurskoðunarinnar að endurskoðandinn fái nægjanlega vissu þess efnis að reikningsskilin séu laus við verulegar villur.

Ragnar sagði ljóst að rannsókn málsins hefði hafist í júní 2009 en ákæra ekki gefin út fyrr en fjórum árum síðar. „Og þótt ákæruvaldið hafi tekið allan þennan tíma til rannsóknar málsins virðist starfsmönnum þess ekki hafa hugkvæmst að það þyrfti að kanna hvort þeir annmarkar sem þeir telja á ársreikningunum hafi haft þau áhrif sem ég var að lesa upp.“

Vísaði Ragnar þar meðal annars til að ef ársreikningar Milestone hefðu verið færðir eins og ákæruvaldið heldur fram að hafi átti að gera hafi áhrifin verið óveruleg. Hefði eiginfjárhlutfall Milestone fyrir árið 2006 lækkað úr 42,9% í 41,1% og í ársreikningi 2007 hefði eiginfjárhlutfallið lækkað úr 63,2% í 61,6%. „Ég legg áherslu á það að skjólstæðingur minn er ekki sammála því að rétt hafi verið að gjaldfæra þessar greiðslur. Ég tel að þessir útreikningar sýni hins vegar að áhrifin á eiginfjárhlutfall Milestone hafi verið óveruleg að mati þeirra sem teljast vera upplýstir lesendur ársreikningsins. [...] Við mat á því hvort verulegir annmarkar eru á ársreikningi verður að taka tillit til hverjir eru lesendur hans og mikilvægi einstakra liða í honum.“

Það var á þessum tíma sem Ragnar vísaði í orð Þórarins Eldjárn. „Það er rétt að á árinu 2008 gerðust ýmsir hlutir sem leiddu til þess að verðmæti Milestone nánast brann upp á mjög skömmum tíma. Og álitaefnin í málinu hefðu aldrei gefið tilefni til höfðunar refsimáls hefðu þær hörmungar ekki dunið yfir. Það er eins og ákæruvaldið telji að endurskoðendur hefðu átt að sjá efnahagshrunið fyrir.“

Ekkert mat gert á ársreikningunum

Ragnar sagði sérstakt að ákæruvaldið, með sína sönnunarbyrði í refsimálum, hefði ekki séð ástæðu til að afla mats í málinu á þeim ársreikningum sem ákært væri vegna. Það hefði komið fram í skýrslutökum fyrir dómi að strangt gæðaeftirlit var með störfum endurskoðendanna og að ársreikningur Milestone fyrir árið 2006 hefði fengið hæstu einkunn. Ákæruvaldið haldi því blákalt fram að ársreikningarnir gefi ranga mynd af stöðunni en ekkert sérfræðiálit sé um það né annað.

Þá vitnaði Ragnar í dóm Hæstaréttar sem höfðað var gegn löggiltum endurskoðenda fyrir tíu árum sem hann sagði hafa snúist um fúsk við endurskoðun sem leiddi til tjóns fyrir Tryggingasjóð lækna. Þar hefðu sannarlega verið dómkvaddi matsmenn.

Í dómi Hæstaréttar segir: „Þessar álitsgerðir kunnáttumanna beindust aðeins að litlu leyti að ætlaðri vanrækslu ákærða varðandi endurskoðun á nákvæmlega tilgreindum þáttum reikningsskila í nánar tilteknum ársreikningum, heldur fjölluðu þær að mestu með almennum orðum um fjölda atriða í senn á löngu árabili. Þá var þar að engu teljandi leyti brugðið ljósi á það hvernig endurskoðandi hefði nánar átt að bera sig að í starfi við sömu atriði ef gætt væri góðrar endurskoðunarvenju. Önnur gögn, sem liggja fyrir í málinu, ráða ekki bót á því, sem hér um ræðir.

Ófært er að leggja mat á það hvort ákærði hafi gætt góðrar endurskoðunarvenju í störfum fyrir tryggingasjóðinn án þess að fyrir liggi hvort verk hans kunni í einhverjum atriðum að hafa tekið mið af rangfærðum gögnum, sem honum verði ekki metið til lasts að hafa ekki tortryggt. Eins og lögregla hagaði hér rannsókn skorti þannig mjög á að hún hafi náð því markmiði, sem mælt er fyrir um í 67. gr. laga nr. 19/1991.“

Umræddu máli var vísað frá dómi og sagði Ragnar að ef aflað hefði verið matsgerðar við rannsókn málsins hefði aldrei komið til ákæru. Ákæruvaldið yrði að bera hallann af skorti á matsgerð.

Aðalmeðferðin heldur áfram eftir hádegið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka