Hanna Birna Kristjánsdóttir mun hætta sem innanríkisráðherra, samkvæmt heimildum mbl.is. Hún ætlar að taka sér frí frá stjórnmálum fram að áramótum og snúa þá aftur á þing.
Hanna Birna mun, samkvæmt heimildum mbl.is, hætta þrátt fyrir að hafa verið hvött til þess af öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar að halda áfram.
Fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu, Gísli Freyr Valdórsson, var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi í síðustu viku fyrir að leka trúnaðargögnum um hælisleitendur úr innanríkisráðuneytinu í fjölmiðla. Hann játaði brot sitt.
Eftir að dómur yfir Gísla Frey féll sagði Hanna Birna í samtali við mbl.is að hún ætlaði ekki að segja af sér.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lýsti í kjölfar dómsins yfir stuðningi við Hönnu Birnu.
20. nóvember í fyrra birtu fjölmiðlar fréttir um hælisleitandann Tony Omos. Nú, réttu ári síðar, hefur innanríkisráðherrann sagt af sér.