Maturinn í leikskólanum Sunnufold í Grafarvogi uppfyllir ekki opinber manneldismarkmið samkvæmt úttekt foreldraráðs skólans.
Líklegt er að hið sama gildi um aðra leikskóla borgarinnar. Þrátt fyrir það ætla borgaryfirvöld að lækka framlög til hráefniskaupa leikskólanna á næsta ári um 7,5 prósent, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Sjálfstæðismenn í borgarráði lögðu til í gær að framlagið yrði hækkað um 3,4 prósent. Foreldraráð Sunnufoldar segir að samsetning matarins sé ekki í samræmi við markmið sem matráðum leikskólanna sé ætlað að fara eftir. Framlag til hráefniskaupa nemi 250 krónum á dag á hvert barn, en þyrfti að vera 415 krónur til að uppfylla markmiðin.