Boðað hefur verið til mótmæla fyrir utan lögreglustöðina á Ísafirði nk. föstudag. Er mótmælunum sérstaklega beint að aðgerðum lögreglu fyrr í vikunni sem leiddu til þess að maður handleggsbrotnaði.
Boðað var til mótmælanna á Facebook í gærkvöldi. Á síðu viðburðarins kemur fram að maðurinn hafi aðeins fengið gifs til bráðabirgða en engin verkjalyf. Hafi hann síðan þurft að sitja í fangaklefa í fimm klukkustundir áður en honum var sleppt. Hann hafi þurft að koma sér sjálfur til Reykjavíkur í aðgerð. Í aðgerðinni þurfti að setja plötu og sex skrúfur í handlegginn til þess að ná brotinu saman, og tvær skrúfur í fingurna á manninum.
Sagt var fyrst frá málinu á mbl.is á fimmtudaginn. Kom þar fram að lögreglan á Ísafirði hefði orðið að grípa til vopna vegna manns sem var vopnaður hnífi í húsi í bænum. Vitnað var í heimildarmann mbl.is á Ísafirði sem sagði að lögreglumenn hefðu gert tilraun til þess að yfirbuga manninn með kylfum og mace-brúsum en orðið frá að hverfa. Þeir náðu þá í byssu í lögreglubílinn í samráði við lögreglustöðina. Manninum var síðan tilkynnt með gjallarhorni að lögreglan hefði vopnast og kom hann í kjölfarið út úr húsinu óvopnaður og var handtekinn.
Lögreglan á Ísafirði tjáði sig um málið síðar sama dag.
Kom fram í yfirlýsingu að lögregla hefði verið kölluð í heimahús þar sem maður var í sjálfsvígshugleiðingum. Á maðurinn að hafa hótað lögreglumönnum með hnífi og vegna ógnandi tilburða hans neyddist lögregla til að vopnbúast.