Í nótt hóf lögreglan á Suðurnesjum ásamt björgunarsveitarmönnum leit að Arkadiusz Pawel Maciag. Leitað er á Miðnesheiði og norður af Keflavík. Símasamband næst af og til við hann en hann getur ekki gefið greinargóðar upplýsingar um staðsetningu sína. Hann segist orðinn kaldur og blautur.
Varðstjóri lögreglunnar á Suðurnesjum biður þá sem kunna að verða varir við ferðir Pawels að hafa samband við lögregluna í síma 420-1800.
Meðfylgjandi ljósmynd af Pawel var tekin árið 2009 og hefur hann grennst talsvert síðan, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar.
Pawel er klæddur í svartan jakka, svartar buxur og svarta skó, hann er einnig mjög snöggklipptur.
Í frétt frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg segir að mannsins hafi verið saknað frá því síðdegis í gær. Pawel er útlendingur og í heimsókn hjá ættingja hér á landi. Sá fór að óttast um hann og kom á lögreglustöðina í Keflavík og óskaði eftir aðstoð.
Símasamband næst af og til við manninn en hann getur ekki gefið greinargóðar upplýsingar um staðsetningu sína og er að sögn orðinn kaldur og blautur. Þessa stundina beinist leitin að svæðinu norður af Keflavík og Miðnesheiði, í átt að Sandgerði.
Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir leitarsvæðið í nótt með miðunarbúnað fyrir síma en það bar engan árangur. Hún er nú í Reykjavík að fylla á eldsneyti.
Milli 70 og 80 leitarmenn úr björgunarsveitum taka þátt í leitinni.
Á fimmta tímanum í nótt barst svo annað útkall í Reykjanesbæ þegar þakplötur fóru að fjúka af þriggja hæða blokk í bænum. Var einn leitarhópurinn sendur í það verkefni og naut til þess aðstoðar slökkviðliðs sem kom með körfubíl til að koma björgunarsveitafólki upp á þakið.