Alls taka 111 björgunarsveitarmenn þátt í leit að ferðamanninum Arkadiusz Pawel Maciag sem ekkert hefur spurst til frá klukkan þrjú í nótt. Guðbrandur Örn Arnarsson, stjórnandi leitarinnar, segir að vaktaskipti hafi átt sér stað nú um ellefu og úthvíldur mannskapur tekið við af þeim sem leituðu í nótt.
„Leitarsvæðið er þéttbýlið í Keflavík og Miðnesheiðin eins og hún leggur sig. Þetta er mjög stórt leitarsvæði sem um er að ræða,“ segir Guðbrandur en bætir við að veðrið sé gott og það sé ávallt jákvætt. Aðallega er um gönguhópa að ræða en leitarhundar taka einnig þátt í leitinni.
Spurður hvort nýjar ábendingar hafi borist segir hann: „Það var reynt að miða hann út í nótt [farsíma mannsins] en það komu mjög ónákvæmar upplýsingar út frá símamiðun. Það eru mjög fáir sendar hérna á Reykjanesinu og þess vegna mjög erfitt að fá einhverja almennilega miðun. En það bárust einhverjar smáupplýsingar sem verið er að vinna úr núna og það er verið að beina leitarhópum að þeim stöðum sem símamiðun benti til að líkur væru á að maðurinn væri.“
Aðspurður segir Guðbrandur að slökkt hafi verið á síma mannsins frá því seint í nótt.