Ekki er víst að umboðsmaður Alþingis muni skila niðurstöðu frumkvæðisathugunar sem staðið hefur yfir á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fráfarandi innanríkisráðherra og Stefáns Eiríkissonar, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu í þessari viku.
Í síðustu viku var greint frá því að umboðsmanni hefði borist ábending um tiltekið atriði í tengslum við athugunina og þurfti því að kanna það. Áður stóð til að birta niðurstöðuna í síðustu viku og því ljóst að vinna við skýrsluna var á lokastigi þegar ábendingin barst.
Aðspurður segist Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, ekki geta sagt til um hvenær niðurstaðan verði birt eða hvort athugunin vegna ábendingarinnar sé umfangsmikil. Tryggvi segir að nú bíði hann upplýsinga vegna athugunarinnar svo hægt sé að ljúka við skýrsluna.
„Tekið skal fram að þar er ekki um að ræða samskipti fyrrverandi aðstoðarmanns ráðherra og fyrrverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum sem hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum,“ sagði í tilkynningu á vefsíðu umboðsmanns Alþingis.