„Teljum að hann sé á lífi“

Arkadiusz Pawel Maciag.
Arkadiusz Pawel Maciag.

Ekkert hefur heyrst frá Arka­diusz Pawel Maciag, ferðamanni sem leitað er á Reykjanesi, frá því kl. 3 í nótt. Talið er að maðurinn sé á lífi þar sem gögn úr farsíma hans sýna að hann er á stöðugri hreyfingu.

„Við teljum að hann sé á lífi,“ segir Sigurður Guðjónsson, í svæðisstjórn björgunarsveita á Suðurnesjum í samtali við mbl.is. Hátt í 80 björgunarsveitarmenn úr sveitum frá Suðurnesjum og úr Reykjavík leita mannsins. Leitarhundur var notaður á svæðinu í nótt og verður því framhaldið í birtingu. Þá verður einnig fjölgað í liði björgunarsveitarmanna.

Sigurður segir að mjög erfiðar aðstæður séu til leitar, rigning, rok og myrkur. Maðurinn er talinn ágætlega klæddur en þó þannig að erfitt er að koma auga á hann.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum er Pawel klædd­ur í svart­an jakka, svart­ar bux­ur og svarta skó. Hann er einnig mjög snögg­klippt­ur. 

Í frétt frá Slysa­varn­a­fé­lag­inu Lands­björgu seg­ir að manns­ins hafi verið saknað frá því síðdeg­is í gær. Pawel er út­lend­ing­ur og í heim­sókn hjá ætt­ingja hér á landi. Sá fór að ótt­ast um hann og kom á lög­reglu­stöðina í Kefla­vík og óskaði eft­ir aðstoð. 

Síma­sam­band næst af og til við mann­inn en hann get­ur ekki gefið grein­agóðar upp­lýs­ing­ar um staðsetn­ingu sína og er að sögn orðinn kald­ur og blaut­ur. Þessa stund­ina bein­ist leit­in að svæðinu norður af Kefla­vík og Miðnes­heiði, í átt að Sand­gerði.

Þyrla Land­helg­is­gæsl­unn­ar flaug yfir leit­ar­svæðið í nótt með miðun­ar­búnað fyr­ir síma en það bar eng­an ár­ang­ur. Hún er nú í Reykja­vík að fylla á eldsneyti.

Frétt mbl.is: Lögreglan leitar Pawels

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert