Ekkert hefur heyrst frá Arkadiusz Pawel Maciag, ferðamanni sem leitað er á Reykjanesi, frá því kl. 3 í nótt. Talið er að maðurinn sé á lífi þar sem gögn úr farsíma hans sýna að hann er á stöðugri hreyfingu.
„Við teljum að hann sé á lífi,“ segir Sigurður Guðjónsson, í svæðisstjórn björgunarsveita á Suðurnesjum í samtali við mbl.is. Hátt í 80 björgunarsveitarmenn úr sveitum frá Suðurnesjum og úr Reykjavík leita mannsins. Leitarhundur var notaður á svæðinu í nótt og verður því framhaldið í birtingu. Þá verður einnig fjölgað í liði björgunarsveitarmanna.
Sigurður segir að mjög erfiðar aðstæður séu til leitar, rigning, rok og myrkur. Maðurinn er talinn ágætlega klæddur en þó þannig að erfitt er að koma auga á hann.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum er Pawel klæddur í svartan jakka, svartar buxur og svarta skó. Hann er einnig mjög snöggklipptur.
Í frétt frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu segir að mannsins hafi verið saknað frá því síðdegis í gær. Pawel er útlendingur og í heimsókn hjá ættingja hér á landi. Sá fór að óttast um hann og kom á lögreglustöðina í Keflavík og óskaði eftir aðstoð.
Símasamband næst af og til við manninn en hann getur ekki gefið greinagóðar upplýsingar um staðsetningu sína og er að sögn orðinn kaldur og blautur. Þessa stundina beinist leitin að svæðinu norður af Keflavík og Miðnesheiði, í átt að Sandgerði.
Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir leitarsvæðið í nótt með miðunarbúnað fyrir síma en það bar engan árangur. Hún er nú í Reykjavík að fylla á eldsneyti.
Frétt mbl.is: Lögreglan leitar Pawels