Er Blanc hættur við að koma til Íslands?

Julien Blanc í viðtali á CNN.
Julien Blanc í viðtali á CNN. Skjáskot af CNN.com

Skráningu á fyrirhuguð námskeið flagaraþjálfarans Julien Blanc á Íslandi hefur verið lokað og hafa námskeiðin verið fjarlægð af vefsíðu fyrirtækisins Real Social Dynamics.

Upphaflega hugðist Blanc aðeins halda eitt þriggja daga námskeið í Reykjavík sem kosta átti þátttakendur 250 þúsund krónur í þátttökugjöld. Í síðustu viku bætti fyrirtækið hinsvegar við þriggja klukkustunda námskeiði, þátttakendum að kostnaðarlausu. Nú virðist hinsvegar sem svo að ekkert verði af námskeiðunum. 

11 þúsund undirskriftir söfnuðust

Ekki er ólíklegt að hörð viðbrögð, bæði hér á landi og víðar hafi orðið til þess að RSD ákvað að láta af fyriráætlunum sínum um námskeiðin. Þúsundir undirskrifta hafa safnast gegn námskeiðum Blanc víða um heim en á þessum  námskeiðum kennir hann karlmönnum hvernig taka eigi konur á löpp. Aðferðir hans þykja afar niðrandi fyr­ir kon­ur auk þess sem orð hans og aðgerðir þykja oft hvetja til andlegs og líkamlegs of­beld­is gegn kon­um. Yfir 11 þúsund undirskriftir hafa nú safnast á síðuna „Stoppum Julien Blanc“ og er nokkuð ljóst að margir munu fagna því að vera lausir við heimsókn Blanc hingað til lands.

Kemur maður í manns stað?

Tvö námskeið sem Blanc hugðist halda í Svíþjóð einnig verið fjarlægð af síðunni en enn standa eftir skráningar á námskeið í Finnlandi, Danmörku og Noregi. Öll námskeið Blanc í London virðast einnig enn eiga að fara fram þrátt fyrir að breskir fjölmiðlar hafi fullyrt í síðustu viku að flagaraþjálfarinn fengi ekki að koma til landsins.

Þó svo að Blanc sé sá þjálfari hjá RSD sem einna helst stundar heimshornaflakk má vissulega vera að annar flagaraþjálfari hjá fyrirtækinu komi í hans stað í Bretlandi en fyrsta námskeiðið í London á að hefjast á fimmtudaginn. Aðrir þjálfarar fyrirtækisins miðla sömu eða svipaðri hugmyndafræði og Blanc, sem snýst síst af öllu um virðingu í garð kvenna og hefur einn eigenda fyrirtækisins sagður hafa grobbað sig opinberlega af því að hafa nauðgað fatafellu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert