Sérhæfður verktaki sem fenginn var til að fjarlægja asbestúrgang sem fannst grafinn undir malarplani á iðnaðarsvæði á Akureyri hefur unnið að því í allan dag. Að sögn Gunnþórs Hákonarsonar, bæjarverkstjóra á Akureyri, er verkið langt á veg komið og ráðgert að það klárist í fyrramálið.
Eins og fram kom á mbl.is var það glöggur starfsmaður sem kom auga á efnið grafið í jörð skammt frá athafnasvæði Íslenska gámafélagsins við Réttarhvamm á Akureyri í síðustu viku. Þann 19. nóvember fóru svo starfsmenn frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og Vinnueftirlitinu á staðinn auk lögreglu.
Um er að ræða svonefnt hart asbest sem rýkur lítið úr. Það er því tiltölulega auðvelt viðureignar. Engu að síður þurfa starfsmenn sem koma að þessu að vera varðir, gallaðir og með grímur. Vinnueftirlitið hefur verið heilbrigðiseftirlitinu innan handar við að leiðbeina um verkið svo það verði fjarlægt á sem öruggastan hátt.
Spurður um magnið segir Gunnþór að það efni sem tekið verður fari í tvo litla gáma íslenska gámafélagsins. Það sé þó ekki allt saman asbest. Í kjölfarið verður asbestinu fargað í samræmi við lögboðnar reglur.
Enn er ekki vitað hver kom asbestinu fyrir en málið er í rannsókn.
Frétt mbl.is: „Fullkomlega ólöglegur gjörningur“