Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu bíður enn lokaniðurstöðu krufningar og geðrannsóknar í tengslum við rannsókn á láti konu á þrítugsaldri í Stelkshólum í lok september. Að öðru leyti er rannsókn málsins lokið. Þegar gögnin berast verður málið sent ríkissaksóknara til áframhaldandi meðferðar.
Eiginmaður konunnar, sem er 29 ára gamall, sætir öryggisgæslu á réttargeðdeild Landspítalans á Kleppi og verður þar alla vega fram á næstkomandi fimmtudag. Allar líkur eru á því að farið verði fram á framlengingu vistar hans þar.
Hann var handtekinn í lok september sl. og var hann í upphafi úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni til 17. október á grundvelli rannsóknar hagsmuna. Fyrsta hálfa mánuðinn var hann í einangrun í fangelsinu. Þann 17. október var gæsluvarðhaldið yfir honum framlengt til 14. nóvember.
Maðurinn, sem grunaður er um að hafa þrengt að öndunarvegi konu sinnar þannig að bani hlaust af, hefur glímt við andleg veikindi.