Sigurður Ingi Þórðarson, sem einnig er þekktur sem Siggi hakkari, hefur ákveðið að breyta afstöðu sinnar til ákæru á hendur sér. Ákæran er á þrjátíu blaðsíðum, í 18 köflum, og varða umfangsmikil fjársvik en alls nemur upphæðin sem Sigurður sveik út eða stal um þrjátíu milljónum króna.
Þetta er kúvending í málinu en Sigurður Ingi neitaði sök við þingfestingu málsins og stefndi í nokkurra daga aðalmeðferð í næstu viku. „Eftir að hafa farið vandlega yfir ákæruna og rætt málið ítarlega við ákærða hefur hann tekið ákvörðun um að játa sök að öllu leyti,“ sagði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Sigurðar, við upphaf fyrirtöku í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Í kjölfarið fór dómari málsins yfir ákæruna og spurði Sigurð Inga beint um afstöðu hans til hennar. „Ég játa sök,“ svaraði hann þá.
Sigurður Ingi viðurkenndi einnig bótaskyldu sína en gerði athugasemd við bótafjárhæðir í málinu. Er því ljóst að fyrirhuguð aðalmeðferð fer ekki fram og verður dómur kveðinn upp á næstu vikum.