Landssamband lögreglumanna hefur fært Kristni Frey Þórssyni og fjölskyldu hans styrk, en peningarnir koma úr Líknar- og hjálparsjóði Landssambandsins. Kristinn Freyr, sem er þrítugur sjómaður, missti konuna sína, Ólöfu Birnu Kristínardóttur, 32 ára, í byrjun september, en hún var með hormónatengdan sjúkdóm. Dætur þeirra eru Kristín Helga, 3 ára, og Ólöf Erla, 1 árs.
Lögreglumenn greiða í sjóðinn mánaðarlega, en þeir selja líka merki og kort í fjáröflunarskyni. Sjóðurinn var stofnaður árið 1992 og samtals hafa á annað hundrað aðilar, bæði einstaklingar og ýmiss samtök, notið góðs af og sannarlega hefur styrkur úr sjóðnum komið þeim öllum vel enda aðstæður hjá fólki oft mjög erfiðar.