Laus úr gæsluvarðhaldi

Bíll sýslufulltrúans á Akureyri.
Bíll sýslufulltrúans á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Maður sem er grunaður um að hafa beðið tvo menn um að ganga í skrokk á fulltrúa sýslumannsins á Akureyri er laus úr gæsluvarðhaldi en gæsluvarðhaldsúrskurður yfir honum rann út í gær. Ekki var óskað eftir framlengingu á gæsluvarðhaldinu að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Rannsókn málsins miðar vel og er langt komin. 

Líkt og fram hefur komið á mbl.is var kveikt í bifreið Eyþórs Þorbergssonar fulltrúa sýslumannsins á Akureyri aðfararnótt miðvikudagsins 12. nóvember sl. Fyrr um nóttina hafði Eyþór verið vakinn upp af grímuklæddum manni sem Eyþór hrakti á brott.

Sá maður sætir nú síbrotagæslu vegna fjölmargra annarra afbrota til 17. desember. Hann og annar maður, sem einnig var handtekinn vegna málsins en var ekki settur í gæsluvarðhald, báru við yfirheyrslur að þeir hafi átt að fá um hálfa milljón króna fyrir að ganga í skrokk á Eyþóri eða allt eftir því hversu mikið þeir slösuðu hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert