Starfsmenn á Fiskistofu hafa sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis bréf þar sem þeir óska eftir því að nefndin taki til skoðunar ákvörðun ráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, um að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar.
„Hér með sendum við undirrituð f.h. starfsmanna Fiskistofu í Hafnarfirði, háttvirtri stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, ósk um að nefndin, á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdavaldinu, taki til skoðunar þá stjórnvaldsákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra, sem hann tilkynnti á fundi með starfsmönnum þann 27. júní síðast liðinn, að flytja ætti höfuðstöðvar Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar. Ráðherra útfærði nánar áætlanir sínar með bréfi til starfsmanna 10. september síðast liðinn.
1) Að mati starfsmanna er framangreind ákvörðun ólögmæt þar sem lagaheimild skortir.
2) Ívilnandi ákvarðanir sem boðaðar voru í bréfi ráðherra 10. september er brot á jafnræði. Starfsmenn sem kynnu að þekkjast þær ívilnanir og sérstaklega þær fjárgreiðslur sem fólust í bréfi ráðherra, óttast og að móttaka þeirra fjármuna sem lofað er geti fellt á þá refsiábyrgð.
3) Kostnaður vegna fyrirhugaðs flutnings mun nema hundruðum milljónum króna af skattfé almennings.
4) Sú pólitíska forsenda sem framkvæmdavaldið kunngerði opinberlega að væri fyrir ákvörðun þess, þ.e. að jafna þyrfti hlut landsbyggðarinnar í opinberum störfum þar sem fjölgun hefði orðið meiri á höfuðborgarsvæðinu, er ekki rétt skv. opinberum gögnum.
5) Fyrirhugaður flutningur mun skaða starfsemi stofnunarinnar verulega um langan tíma,“ segir í bréfi starfsmannanna.