„Þetta gekk vel og hefur allt staðist áætlun að langmestu leyti. Núna ætla ég bara að fara að huga að uppbyggingu og get ekki annað en verið mjög bjartsýn og jákvæð gagnvart framtíðinni,“ segir Ólöf Nordal, fyrrverandi alþingismaður, í samtali við mbl.is en hún greindist með illkynja krabbameinsæxli í sumar og var með skömmum fyrirvara skorin upp við því. Við tók margra mánaða lyfjameðferð sem lauk í gær. Ólöf ákvað strax að takast á við þessa áskorun með jákvæðni að vopni eins og fram kom í viðtali sem mbl.is tók við hana í ágúst.
„Ég vissi auðvitað ekkert hvað ég var að fara út í með þessari lyfjameðferð. Þetta hefur allt tekið mjög mikið á og það sem oft bætist ofan á það er að margir eru mjög hræddir við þennan sjúkdóm. Það fylgir með. Ég gat sem betur fer staðið við það sem ég lofaði mér í upphafi að ég skyldi beita allri minni einbeitningu og viljastyrk til þess að halda mér uppi og reyna að hafa gaman í kringum mig. Ég er sannfærð um að það hafi haft verulega mikil áhrif á það hvernig þetta gekk. Afstaðan til þessarar áskorunar,“ segir hún.
Kom syngjandi út úr lyfjameðferðinni
Ólöf segist þannig hafa einfaldlega litið á veikindin sem verkefni sem hún þyrfti að fara í gegnum og hún myndi sigrast á. „Ég ákvað að hleypa mér ekki í það að hafa of miklar áhyggjur af þessu þó auðvitað hafi komið dagar þegar maður hefur haft áhyggjur. Ég er sannfærð um að það hafi haft áhrif. Ég kom til að mynda syngjandi út úr lyfjameðferðinni í gær. Ég held að það geti haft áhrif á líkamann að beita hugarorkunni þannig á hann. Þegar maður einbeitir sér að því að gera það sem maður ætlar sér að gera og heldur áfram að brosa framan í fólk.“
Spurð út í lyfjameðferðina segir hún að um mikið inngrip sé að ræða fyrir líkamann. „Ég fór að meðaltali á þriggja vikna fresti á Landspítalann. Ég kallaði það alltaf að fara á dælustöðina. Þar var lyfjunum dælt í mig sem tók marga klukkutíma. Þetta er náttúrulega bara eitur sem er til þess hugsað að skola út úr líkamanum. Fyrir vikið verður líkaminn aumari á meðan á þessu stendur. Maður missir til að mynda hárið. En tilgangurinn með þessu er auðvitað að hreinsa þetta úr líkamanum og síðan kemur þetta allt aftur. Hárið vex og líkaminn styrkist.“
Tekur upp þráðinn þar sem frá var horfið
Verkefnið framundan er síðan að ná aftur fullum líkamlegum þrótti og taka aftur upp þráðinn þar sem frá var horfið. „Núna tekur við að koma sér bara aftur út í þjóðfélagið. Ég ákvað það strax að ég ætlaði ekki að gera neitt annað en að takast á við þessi veikindi. Fólk nálgast þetta með mismunandi hætti. Sumir leggja áherslu á að hafa einhver önnur verkefni á meðan þetta gengur yfir. Það er svo einstaklingsbundið. Ég ákvað hins vegar að gera það ekki heldur einbeitti öllum mínum kröftum í þetta og ég held að það hafi hjálpað mér mikið.“
Ólöf tók sér leyfi frá ýmsum störfum sem hún gegndi þegar veikindin komu upp og nú hyggst hún einbeita sér að þeim aftur. „Nú vil ég fara að komast aftur út í þjóðfélagið og huga aftur að því sem framtíðin ber í skauti sínu og setja mér lengri áætlanir en bara þrjár vikur fram í tímann. Ég hef undanfarna mánuði bara horft fram til næstu lyfjadælingu,“ segir hún og hlær.
Frétt mbl.is: Ólöf Nordal með illkynja æxli