Maður sem er grunaður um að hafa orðið valdur að andláti eiginkonu sinnar í Stelkshólum í lok september hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi öryggisgæslu.
Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að maðurinn hafi verið úrskurðaður í öryggisgæslu á á réttargeðdeild Landspítalans á Kleppi næstu fjórar vikurnar.
Enn er beðið eftir lokaniðurstöðu krufningar og geðrannsóknar í tengslum við rannsóknina og segir Friðrik að ekki sé hægt að segja til um hvenær hún liggi fyrir. Að öðru leyti er rannsókn málsins lokið. Þegar gögnin berast verður málið sent ríkissaksóknara til áframhaldandi meðferðar.
Eiginmaður konunnar, sem er 29 ára gamall, var handtekinn í lok september sl. og var hann í upphafi úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni til 17. október á grundvelli rannsóknar hagsmuna. Fyrsta hálfa mánuðinn var hann í einangrun í fangelsinu. Þann 17. október var gæsluvarðhaldið yfir honum framlengt til 14. nóvember.
Maðurinn, sem grunaður er um að hafa þrengt að öndunarvegi konu sinnar þannig að bani hlaust af, hefur glímt við andleg veikindi.