„Það er bara mikil ánægja með þetta hér, krakkarnir eru alsælir,“ segir Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, skólastjóri Ingunnarskóla, um þá ákvörðun að seinka byrjun skóladagsins fyrir nemendur í 6.-10. bekk. Frá því í haust hefur kennsla hafist kl. 8.30 í stað 8.10, og er það tilhögun sem hefur reynst vel.
Breytingin var nýverið rædd á fundi skólastjórnenda og foreldra. Guðlaug segir foreldrana m.a. hafa talað um það að dregið hafi úr streitu á morgnanna, þegar allir eru að koma sér út úr húsi á sama tíma. „Það er ekki sama spennan, fólk talar um það. Að þetta sé mýkri byrjun á morgnunum, minni spenna, og það fara allir rólegri út. Þannig að þetta hefur áhrif á allt heimilið,“ segir hún.
Hugmyndin var fyrst rædd í skólaráði sl. vor, en þar var m.a. velt upp þeim möguleika að seinka kennslu til kl. 9. „Það er svo flókið útaf dagskrá krakkana í sambandi við tómstundastarfið. Það eru þessar íþróttaæfingar og annað sem tekur við þegar skólinn er búinn. Þannig að við þorðum ekki að ganga lengra, en ákváðum að byrja þarna og sjá hvernig þetta myndi ganga,“ segir Guðlaug.
Hún segir að eftir breytinguna mæti krakkarnir síður seint í tíma.
Í stað þess að lengja skóladaginn í hinn endann var gripið til þess ráðs að klípa af mínútur af frímínútum og inn á milli tíma. Þessu fylgir að kennararnir taka við nýjum hóp um leið og þeir kveðja annan, og krakkarnir þurfa að vera snöggir að koma sér á milli stofa. Engu að síður segir Guðlaug kennarana einnig ánægða með að taka daginn örlítið seinna.
„Þeim fannst þetta bara mjög jákvætt. Þetta skiptir þá kannski ekki máli öðruvísi en að krakkarnir koma rólegri inn í daginn og eru sáttari. Og eins fyrir kennarana, þá getur þetta líka verið mjög jákvætt, þeir koma kannski upp úr átta og geta þá verið búnir að undirbúa betur. Þetta er líka mýkri byrjun fyrir þá, þannig að þetta kemur sér vel fyrir alla.“
Guðlaug segir muna um mínúturnar 20 hvað morgunbirtuna varðar. Hún segist aðeins hafa fengið fyrirspurnir frá öðrum skólum og nefnir Hagaskóla sem dæmi um annan skóla sem hafi ákveðið að prófa að byrja seinna og líki vel.
„Við munum ekki snúa til baka,“ segir Guðlaug, en óskastaðan væri að klukkunni yrði almennt seinkað.