„Við viljum fá skýringar á þessum úthlutunum og eins trúum við því að þegar farið verður að rýna ofan í þetta og gengið endanlega frá fjárlögum, þá sjái Alþingi að sér. Að þetta sé mismunun sem er ekki við hæfi og kippi þessu í liðinn.“
Þetta segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, en þar ríkir mikil óánægja með tillögur fjármálaráðuneytisins um aukningu á fjárframlögum til háskóla í landinu um 617 milljónir króna. Það er að sjálfsögðu ekki aukningin sem slík sem hefur valdið undrun, heldur sú staðreynd að rúm 90% hennar rennur til tveggja háskóla; Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík.
„Ég ætla ekki að fara í neinar grafgötur með það að það er nauðsynlegt að auka fjármagn í háskólaumhverfinu,“ segir Eyjólfur. „Ef við ætlum að auka verðmætasköpun í þessu landi, auka verðmæti útflutnings, auka verðmæti þjónustugreina, eins og ferðaþjónustunnar, og vera betri í því sem við erum að gera, þá er menntun grundvöllurinn í því samhengi. Ég held að það séu fáir sem mótmæla því.
Þess vegna fögnum við því að það sé hægt að leggja meira í núna, eitthvað sem búið er að bíða eftir í mörg ár, en það er þessi aðferðafræði sem er notuð til að útdeila þessum nýju peningum sem kemur verulega á óvart,“ segir Eyjólfur.
Hann segir skilaboðin harkaleg, sérstaklega í ljósi þess að Háskólinn á Akureyri hefur nýverið lokið við að greiða 100 milljóna króna skuld við ríkið, sem hann gerði með því að skila rekstrarafgangi í sjö ár. Þá fékk skólinn góða niðurstöðu úr úttekt gæðaráðs háskólanna, sem kynnt var nýverið, og kannanir hafa sýnt að nemendur eru afar ánægðir með skólann.
„Það kom fram í fyrirspurn á Alþingi í mars að við erum með þriðja hæsta hlutfall birtra greina í rannsóknum á hvern akademískan starfsmann og við erum þriðji stærsti háskóli landsins,“ segir Eyjólfur. „Við erum fyllilega sambærileg við aðrar stofnanir, en samt ákveða þeir að setja allt púðrið í þessar tvær stofnanir og við þurfum áfram að berjast fyrir því að halda sjó og fáum ekkert svigrúm til að bæta upp þann mikla niðurskurð sem hefur orðið á síðustu árum.“
Framlög til Háskólans á Akureyri hækka um 91 milljón króna milli ára skv. fjárlagafrumvarpinu en hlutur skólans af viðbótarfjármununum sem tilkynnt var um í vikunni nemur 10,3 milljónum. Eyjólfur segir hina reglubundnu aukningu milli ára svipaða hjá öllum háskólastofnununum en af 617 milljónunum fá Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík hins vegar samtals 556 milljónir.
„Þessi peningur er alveg nýr inn í kerfið. Þetta er fyrsta skrefið sem ríkisvaldið tekur til að reyna að jafna þennan mun sem er á háskólum á Íslandi vs. meðaltal framlags á hvern nemanda í OECD-löndunum,“ segir Eyjólfur. Aukningin sé í takt við markmið vísinda- og tækniráðs, sem vilji færa framlögin á Íslandi nær því sem gengur og gerist í OECD-löndunum, og vera á pari við Norðurlöndin 2020.
„Við töldum okkur vera að vinna samkvæmt þessari stefnu og þetta væri hægur undirbúningur undir að það yrði hægt að bæta í þegar áraði betur hjá stofnunum,“ segir hann.
Hvað varðar þann mikla mun sem er á viðbótarframlaginu milli skóla, hefur Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, gefið þær skýringar að í kjölfar þess að margir misstu vinnuna í kjölfar bankahrunsins, hefðu Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík tekið við miklu fleiri nemendum en þeir fengu greitt með. Breytingarnar væru því til leiðréttingar.
Eyjólfur segist ekki skilja þessa skýringu.
„Á sama tíma var Háskólanum á Akureyri gert að skera niður, þannig að við höfðum minni tækifæri til að bæta við nemendum, en við erum í dag með umframnemendur frá þessum nemendaígildum, vegna þess að aðsókn til okkar 2013 og 2014 hefur verið óvenjumikil. Og í dag erum við með 1.703 nemendur og höfum aldrei haft fleiri. En það virðist sem þeir hafi tekið meðaltal síðustu ára, eða einhverja tölu sem við komum ekki inn í,“ segir hann.
Þá segist hann ekki kaupa þá skýringu að það þurfi að bæta skólunum upp nemendaígildin, þar sem fram komi í fjárlögunum sem lögð voru fram í september að fækka eigi nemendum, mest hjá HÍ og HR.
Eyjólfur segist hafa komið athugasemdum á framfæri við menntamálaráðuneytið og fleiri aðila og bent á óréttlætið i úthlutun viðbótarfjármunanna. Hann segir málinu ekki lokið. „Það er náttúrulega ekki búið að loka fjárlögum og þeir geta ennþá leiðrétt þetta, ef þingmönnum sýnist svo.“