Samanlagt gætu átta virkjanakostir sem meirihluti atvinnuveganefndar vill setja í nýtingarflokk skilað 555 MW af orku. Það yrði mikil viðbót við orkuframleiðslugetu í landinu og má nefna að Búðarhálsvirkjun skilar um 95 MW af orku og Kárahnjúkavirkjun, stærsta virkjunin, 690 MW.
Með tillögunni færu sjö virkjanir með Hvammsvirkjun í nýtingarflokk rammaáætlunar og eru þar af þrír virkjunarkostirnir í Þjórsá. Landsvirkjun hefur endurmetið þessa þrjá kosti og er áætluð orka þeirra nú talin 25 MW meiri en áður. Fer til dæmis Urriðafossvirkjun úr 130 í 140 MW, að því er fram kemur í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, lagði tillöguna fram á fundi nefndarinnar í gær. Hann segir það vilja meirihluta nefndarinnar að hagsmunaaðilar skili inn umsögnum innan viku, eigi þeir þess kost. Þeim sem þess óska verði hins vegar veittur lengri frestur.