Löglegt en banvænt

AFP

Það er ekki vitað hversu eitrað það er en það sem er vitað er að það getur drepið. Eiturlyf sem gengur undir hinum ýmsu nöfnum, svo sem spice og K2, hefur kostað þrjá unga Svía lífið og yfir 300 hafa þurft að leita sér læknisaðstoðar þar í landi vegna neyslu efnisins það sem af er ári. Það þekkist hins vegar ekki hér á landi og skýrist það einkum af mikilli kannabisframleiðslu hér en spice er oft kynnt sem hliðstæða marijúana en það á hins vegar lítið sameiginlegt með því. Þrátt fyrir að marijúana sé ólöglegt hér á landi þá er spice það ekki.

Fyrr í mánuðinum óskuðu sænsk stjórnvöld eftir því við Evrópusambandið að fá heimild til þess að banna spice í kjölfar tveggja dauðsfalla ungra manna þar í landi eftir neyslu á efninu. Síðan þá hefur einn bæst í hóp hinna látnu því fyrr í vikunni fannst maður á þrítugsaldri látinn í sumarbústað og er talið að hann hafi látist eftir neyslu efnisins. Ekkert bólar hins vegar á heimildinni um að banna efnið enda oft langt ferli að leggja bann við innflutningi á efnum sem þessum. 

Byggir sænska ríkið beiðni sína á almannahagsmunum en í eiturlyfinu er að finna efni sem geta reynst banvæn sé þeirra neytt.

Óttast mikinn innflutning á LSD-afleiðum

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, segir að hún kannist ekki við að spice sé í umferð hér á landi að minnsta kosti hefur það ekki komið upp hjá sjúklingum á Vogi.

Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, tekur í sama streng og segir að þetta gervi-marijúana hafi ekki verið í umferð hér undanfarin ár. Það hafi eitthvað verið tekið af því í tolli á árunum 2009-2011 en síðan ekki söguna meir. Eins hefur lögreglan ekki orðið vör við það á fíkniefnamarkaðnum hér á landi frá þeim tíma. Helsta skýringin þar á er væntanlega sú mikla framleiðsla á kannabis hér á landi sem annar innanlandsmarkaði.

Hún segir að spice sé ekki á bannlista hér á landi ekkert frekar en í Svíþjóð. Svíar séu hins vegar yfirleitt mjög framarlega á því sviði og voru fljótir til þess að banna LSD-afleiður sem þýðir að innflutningur á þeim er ólöglegur þar í landi en því er ekki þannig farið á Íslandi. Hún segir að lögreglan hafi miklar áhyggjur af innflutningi af þessum LSD-afleiðum en vitað er að mikið magn þeirra er flutt hingað til lands. 

Í byrjun september hafði tollstjóraembættið lagt hald á tæp­lega átta þúsund skammta af of­skynj­un­ar­lyf­inu LSD það sem af var ári. Það er mun meira magn held­ur en lagt hef­ur verið hald á und­an­far­in ár, en til dæm­is í fyrra var lagt hald 715 skammta og árið 2012 aðeins 10 skammta. Toll­ur­inn hef­ur mikl­ar áhyggj­ur af þess­ari þróun.

LSD-skammt­arn­ir hafa borist til lands­ins með póst­send­ing­um en auk þeirra hafa toll­verðir lagt hald á 49 grömm af LSD-dufti það sem af er ár­inu.

„Haldi þessi þróun áfram er það mikið áhyggju­efni, því um er að ræða of­skynj­un­ar­efni og geta sál- og geðræn­ar af­leiðing­ar verið skelfi­leg­ar,“ seg­ir á vef Tollstjóraembættisins.

Í um­fjöll­un­ um LSD á Vísindavefnum seg­ir meðal ann­ars: „Sturlun­ar­ein­kenni geta komið fram sem ein­stak­ling­ur ger­ir sér ekki grein fyr­ir að eru af völd­um vím­unn­ar. Þetta byrj­ar skyndi­lega, ein­kenn­ist af skyn­vill­um og -trufl­un­um og veld­ur því að raun­veru­leika­tengsl tap­ast. Ein­stak­ling­ur miss­ir dómgreind og tel­ur sig kannski geta flogið eða synt á haf út til að sam­ein­ast al­heim­in­um. Ofsa­hræðsla er eins og áður seg­ir mögu­leg af­leiðing en marg­ir verða skelf­ingu lostn­ir yfir því að vera að ganga af göfl­un­um og brotna jafn­vel sam­an.

Efnið get­ur auk þessa or­sakað of­sókn­aræði. Neyt­and­inn sýn­ir þá ein­kenni van­trausts, hef­ur á til­finn­ing­unni að fylgst sé með sér, að ein­hver hafi verið sett­ur til höfuðs hon­um og reyni jafn­vel að stjórna hugs­un­um hans.“

Nú í vikunni var greint frá því að tollstjóri lagði nýverið hald á mikið magn af sterum og lyfjum sem bárust hingað til lands með póstsendingu. Um var að ræða tæp þrjú kíló af sterum í duft- og gelformi og rúmlega fimm kíló af lyfjum, einnig í duftformi, sem reyndust vera tvær tegundir af staðdeyfilyfjum.

Sendingin barst frá Hong Kong og hafði lyfjunum og sterunum verið komið fyrir í pakkningum utan af matvælum. Málið var kært til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem fer með rannsókn þess.

Spice er eitt þeirra þriggja eiturlyfja sem nú er sérstaklega varað við vegna þess hversu hættulegt það er og nýtt á markaði. Hin tvö eru molly, sem er  betur þekkt sem e-tafla, og krokodil sem er kodein og morfínblanda sem á að líkja eftir áhrifum heróíns.

„Þetta er lífshættulegt eitur“

Einn þeirra sem hafa fallið fyrir spice er Connor Reid Eckhardt en hann var aðeins nítján ára gamall þegar hann lést eftir neytt efnisins. Hann féll í dá eftir að hafa reykt spice með vinum sínum og komst aldrei til meðvitundar í ný. Eftir fjóra daga í dái var hann úrskurðaður heiladauður og slökkt á vélunum sem héldu honum á lífi.

Faðir hans, Devin Eckhart, segir að enginn sé öruggur þegar kemur að neyslu efnisins, það eigi fátt skylt með marijúana. „Þetta er lífshættulegt eitur,“ segir Eckhardt en fjölskylda Connors berst nú fyrir því að spice verði bannað.

Þegar Connor lá fyrir dauðanum í ágúst sl. biðlaði móðir hans, Veronica, til fólks um að gera sér grein fyrir hættunni samfara notkun á spice og að neysla þess væri dauðans alvara.

Kínversk lukt á loft í stað þess að sækja hann á flugvöllinn

Fjölskylda hans tekur virkan þátt í baráttunni gegn spice og öðrum sambærilegum verksmiðjuframleiddum eiturlyfjum og á Facebook síðu hans í vikunni er að finna myndskeið þar sem þau senda á loft kínverska lukt til minningar um hann. Þau segja að hún sé sett á loft í stað þess að sækja Connor á flugvöllinn svo hann gæti eytt þakkargjörðarhátíðinni með fjölskyldunni. 

Connor vissi örugglega ekki hversu hættulegt efnið var sem hann var að nota en það veit starfsfólk á bráðamóttökum sjúkrahúsa um allan heim sem og réttarmeinafræðingar því það sér afleiðingar af neyslu þess daglega.

„Það er jafnvel rangnefi að segja að þetta sé gervi marijúana,“ segir dr. Aaron Schneir, sem er doktor í klíniskum eiturefnafræðum og er prófessor við Kaliforníuháskóla. Hann bendir á að þrátt fyrir að marijúana hafi lengi verið í notkun þá sé afar sjaldgæft að þeir sem neyti þess séu fluttir á bráðamóttöku. En samfara neyslu þessa efnis þá hefur orðið sprenging í heimsóknum á bráðamóttökur vegna ofneyslu.

Vinsælt meðal menntskælinga

Við framleiðslu á spice og öðrum skyldum efnum er oft verksmiðjuframleiddum efnum sprautað yfir jurtir, reykelsi eða sambærilega hluti til þess að líkja eftir áhrifum af THC (virka efninu í kannabis). Þetta dóp kom fyrst á markað í Bandaríkjunum árið 2008 og gengur yfirleitt undir heitinu spice eða K2 þó svo að nöfnin séu fjölmörg. Það var gjarna markaðssett sem reykelsi og selt í litlum litríkum pakkningum og tekið fram að ekki að innbyrða það.

Spice eða K2 varð strax afar vinsælt meðal bandarískra menntaskólanema og annarra ungmenna þar sem það var löglegt og hægt að kaupa það í verslunum og á netinu allt þar til í júlí 2012 er Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, skrifaði undir lög sem lögðu bann við sölu á gervi kannabisefnum (synthetic cannabinoids).

Í fyrstu var talið að efnið væri sárasaklaust en annað hefur komið í ljós því í mörgum ríkjum Bandaríkjanna hafa komið upp fjölmörg tilvik þar sem fólk hefur tekið of stóra skammta og þetta tilbúna efni er mun hættulegra heldur en kannabis er þar sem gervi THC efnin geta í einhverjum tilvikum verið banvæn. Spice er yfirleitt notað á svipaðan hátt og marijúana, svo sem reykt eða sett í kökur eða te.

Þeir sem hafa neytt þess segja áhrifin svipuð og af hefðbundnu kannabisi og hliðarverkanir eru oft á sömu nótum, svo sem ofskynjanir, ofsahræðsla og ofsóknaræði. Hins vegar eru hliðarverkanir oft meiri af gerviefninu en í hefðbundnu kannabis en það fer eftir styrkleika kannabisefnanna. Til að mynda er það kannabis sem er í umferð á Íslandi í dag mun sterkara en það sem var í umferð á Íslandi fyrir áratug síðan.

Í skýrslu sem gefin var út árið 2012 á vegum Substance Abuse and Mental Health Services Administration (SAMHSA) kemur fram að 11.400 leituðu aðstoðar á bráðamóttökum í Bandaríkjunum árið 2010 vegna neyslu á spice og svipuðum efnum. Meðal þess sem kvartað var undan var hár blóðþrýstingur, ógleði, uppköst, ofsahræðsla ofl. Í einhverjum tilvikum létust neytendur efnisins úr hjartaáfalli.

Breyta formúlunni stöðugt og því erfitt að koma í veg fyrir innflutning

Nýleg rannsókn í Svíþjóð hefur leitt í ljós að spice dregur úr súrefnisflæði til líffæra og það skýri hvers vegna svo mörg ungmenni hafi verið flutt á bráðamóttöku eftir neyslu þess, segir Robert Olsson, yfirmaður fíknimiðstöðvar Västmanland, í samtali við sænska ríkisútvarpið.

Olson segir að framleiðendur spice breyti samsetningu eiturlyfsins stöðugt þannig að allar rannsóknir og umsóknir um að banna efni sem notuð eru í spice nái aldrei að halda utan um vandann sem glímt er við. 

Eins og hér kom fram að framan er talið að þrír hafi látist úr ofneyslu spice í Svíþjóð á þessu ári. Grunur er um að fjórða ungmennið hafi látist úr ofneyslu spice en það hefur ekki verið staðfest. Frá árinu 2010 hafa leifar efnisins fundist við krufningu þrjátíu einstaklinga þar í landi.

Samkvæmt Aftonbladet berast nánast daglega fréttir þetta haustið af ungmennum sem hafa þurft að leita læknisaðstoðar vegna ofneyslu á spice og sambærilegum efnum. Á sama tíma aukast vinsældir þess jafnt og þétt og þeir sem selja spice verða ríkari og ríkari.

„Þú hefur drepið son minn“

Blaðamenn Aftonbladet ræddu við Rikard, sem er 24 ára gamall, og hefur hagnast gríðarlega á viðskiptum með spice. Vefur hans er nefndur á umræðuvettvanginum Flashback sem einn besti vefurinn til þess að panta spice í Svíþjóð. Á hverjum degi sendir hann út hundruð pakkninga af spice blöndu til neytenda en efnið fær hann frá Englandi en framleiðslan fer einkum fram í Kína.

Rikard viðurkennir að hann hafi fengið bréf frá foreldrum þar sem meðal annars stendur „þú hefur drepið son minn“ en hann sér ekki að hann beri þar nokkra ábyrgð. En ef fólk þurfi á blóraböggli að halda þá geti hann alveg tekið það á sig. Það sé ekki hans sök ef fólk neytir spice, efnis sem er löglegt og hefur gert hann ríkan.

Aftonbladet

DN.se 

bt.se

AFP
Eiturlyfið spice
Eiturlyfið spice Af vef Wikipedia
Steraduft
Steraduft Tollstjóri
Tollverðir hafa haldlagt 7996 skammta af LSD það sem af …
Tollverðir hafa haldlagt 7996 skammta af LSD það sem af er þessu ári. Ljósmynd/Tollurinn
Tollverðir hafa haldlagt 7996 skammta af LSD það sem af …
Tollverðir hafa haldlagt 7996 skammta af LSD það sem af er þessu ári. Ljósmynd/Tollurinn
Connor Reid Eckhardt
Connor Reid Eckhardt Facebook
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert