Þegar fjárlagafrumvarp næsta árs var afgreitt í gær var ákveðið að veita 60 milljónum króna í rannsóknir á ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta er ein undirstöðuatvinnugreinin í landinu en það vantar rannsóknir á því sviði að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, varaformanns fjárlaganefndar.
Staðreyndin er sú að ferðaþjónustan fær innan við 1% í dag af því rannsóknarfé sem stjórnvöld veita til rannsókna á mismunandi atvinnuvegum í landinu. Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem hefur vaxið hvað mest síðustu ár og tækifæri til áframhaldandi vaxtar og verðmætasköpunar fyrir þjóðarbúið eru fyrir hendi. Að sögn Guðlaugs munu rannsóknir tryggja rétta vegferð.
Um ræðir þrjár tegundir rannsókna, sem allar eru mikilvægar og styðja hver við aðra. Þar er átt við gagnaöflun á helstu tölum og stærðum ferðaþjónustu og ferðamála, ráðgjöf og þjónusturannsóknir sem snúi að úrvinnslu þeirra gagna sem aflað er og fræðirannsóknir sem snúa að rýningu fyrirliggjandi gagna og túlkun þeirra.
Mikilvægastir eru hliðarreikningar - TSA (þegar komnir í vinnslu hjá Hagstofunni) og fyrirtækjatölfræði, að gera samfellda landamærakönnun, að efla talningu gesta til landsins og um allt land og að tryggja aðgengi að þessum grunngögnum til að rýna frekar til að leita svara við fjölda þeirra spurninga upp hafa komið og koma til með að koma upp.
Þetta þýðir að til hliðar við öflugan gagnaöflunaraðila sem myndi sinna greininni t.d. Hagstofan með einhvers konar ferðaþjónustudeild, þá þarf öfluga óháða rannsóknareiningu sem helguð er ferðamálum. RMF (Rannsóknarmiðstöð ferðamála) og jafnvel Hagfræðistofnun gætu verið grunnar að því.
Ferðamálastofa, ásamt hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu unnu greiningu um þörf fyrir rannsóknir í íslenskri ferðaþjónustu árið 2013. KPMG var fengið til aðstoðar. Kemur þar fram að þörfin fyrir tölfræði sem aðgengileg væri öllum, samfélagi og rannsakendum, sé mikil.