60 ára ösp rifnaði upp með rótum

Hér er ekki um neina hríslu að ræða eins og …
Hér er ekki um neina hríslu að ræða eins og sjá má. Ljósmynd/ Facebook.com/Dalvikurbyggd

Rúmlega  60 ára gömul ösp rifnaði upp með rótum í Dalvíkurbyggð um klukkan hálfeitt í nótt. Öspin stóð milli tveggja húsa á Goðabraut.

„Við heyrðum bara svona högg í stórri vindhviðu, ég var að koma úr sturtu þegar þetta gerðist,“ segir Sigríður Dóra Friðjónsdóttir, sem býr í öðru húsinu. „Við héldum að það hefði bara ein grein brotnað en þá var það bara öll plantan sem lá hérna við húsið.“

Króna trésins féll utan í hús Sigríðar en rætur þess lágu upp að húsvegg nágranna hennar. Hún segir bæði húsin þó hafa sloppið við skemmdir. 

„Ég hrindi strax í björgunarsveitina og þeir voru mættir hingað fimm mínútum síðar,“ segir Sigríður. „Í framhaldi af því var ákveðið að hringja á kranabíl sem stendur hér úti enn. Hann var bundinn við öspina til öryggis svo hún færi ekki neitt í nótt.“

Björgunarsveitin bað Sigríði og fjölskyldu hennar að teipa rúður í gluggum hússins að innanverðu til öryggis, sem þau og gerðu, en hún segir nóttina að öðru leyti hafa verið rólega. Sigríður gerir ráð fyrir að öspin verði fjarlægð í dag en hún segir ekki mikinn missi að henni.

„Þessar aspir eru svo sem pínu vargar þótt þær séu mjög falleg tré. Mér fannst hún kannski ekki alveg á réttum stað, svona milli húsa,“ segir Sigríður hreinskilnislega en viðurkennir að hún muni eflaust sakna hennar smá.

Sigríður vill koma á framfæri þakklæti til björgunarsveitarmanna, sem og lögreglu og Óskars á steypustöðunni sem lánaði kranabílinn góða.

Sigríður taldi fyrst að grein hefði brotnað.
Sigríður taldi fyrst að grein hefði brotnað. Ljósmynd/ Facebook.com/Dalvikurbyggd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert