Allar boðleiðir nýttar

Það var m.a. auglýst í Strætó-appinu að akstri hefði verið …
Það var m.a. auglýst í Strætó-appinu að akstri hefði verið hætt vegna veðurs. mbl.is

Ákvörðun um að hætta akstri Strætó í gærkvöldi vegna veðurs var tekin um kl. 21 og auglýst á heimasíðu Strætó, í strætó-appinu og í tilkynningu til fjölmiðla. Hún var tekin í samráði við Almannavarnir, en Strætó ekur samkvæmt ákveðnum vindviðmiðum sem hafa verið samþykkt af Almannavörnum og Vátryggingafélagi Íslands, sem tryggir Strætó.

Nokkrir farþegar Strætó settu sig í samband við mbl.is í gær og sögðust hafa beðið nokkra stund eftir vagni, þar sem þeir vissu ekki að akstri hefði verið hætt.

Að sögn Júlíu Þorvaldsdóttur, sviðsstjóra farþegaþjónustusviðs Strætó, voru hins vegar allar mögulegar leiðir notaðar til að koma boðum til farþega, þ. á m. Facebook. Aðeins einn farþegi hefur sett sig í samband við Strætó með athugasemd.

Júlía segir fátítt að akstri sé hætt og þá sýni farþegar mikinn skilning. „Það er öryggi umfram áætlun við svona aðstæður. Undantekningalaust,“ segir hún.

Viðbót kl. 13.10 - fréttatilkynning frá Strætó:

Vegna veðurofsans í gærkvöldi var ákveðið, í samvinnu við almannavarnir, að stöðva vagnaflota Strætó bs.  Öryggi farþega og starfsfólks skiptir öllu máli í starfsemi Strætó bs. Það er út frá þeim forsendum sem sett eru ákveðin vindviðmið sem höfð eru til hliðsjónar við ákvarðanir sem þessar.

Ávallt er reynt er að komast hjá því að aflýsa ferðum strætisvagna og stuðst við fyrirfram samþykkt öryggisviðmið. Vindviðmiðum fyrir stór ökutæki er skipt í þrjú stig. Veðuroffsi gærdagsins var slíkur að hann fór í 3 stig vindviðmiða við akstur stórra ökutækja og því var talið nauðsynlegt að stöðva akstur vagnaflotans til að tryggja öryggi.

Til að koma mikilvægum upplýsingum á framfæri til farþega og almennings eru þær sendar til fjölmiðla, settar á heimasíðu Strætó og á fésbókarsíðu Strætó ásamt því að þær birtast í Strætó-appinu.

Strætó biður farþega afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa valdið.

Vindviðmið fyrir stór ökutæki

Viðvörunarstig vindviðmiða fyrir stór ökutæki eru þrjú. Vindviðmið 1 miðast við stormviðvörun 20 m/s og að hviður geti farið í 26 – 29 m/s, vindviðmið 2 miðast við stormviðvörun 24 m/s og að hviður geti farið í 30 – 35 m/s og loks vindviðmið 3 sem miðar við stormviðvörun 28 m/s og að hviður geti farið yfir 35 m/s. Viðvörunarstig 3 kallar á skilyrðislausa stöðvun aksturs stórra ökutækja.

Vindviðmið fyrir stór ökutæki, sem Strætó bs styðst við, eru unnin í samvinnu Umferðarstofu, Vegagerðarinnar, VÍS og Sjóvá.

Farþegar ósáttir við ákvörðun Strætó

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert