Ríkisstjórnin hyggst ráðast í úrbætur á skipulagi og starfi Stjórnarráðsins. Unnið verður að því að bæta upplýsingagjöf til fjölmiðla og almennings. Sveigjanleiki við skipulag Stjórnarráðsins og stofnana sem undir ráðuneyti heyra verður aukinn með það að markmiði að gera stjórnvöldum betur kleift að bregðast við sífellt flóknari úrlausnarefnum í samtíð og framtíð.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Þá kemur fram, að jafnframt verði vægi og eftirfylgni með siða- og verklagsreglum innan Stjórnarráðsins aukið m.a. í samráði við umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun. Í því skyni hafi ríkisstjórnin samþykkt að leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Þá hafi verið ráðinn sérfræðingur á sviði upplýsingamála í tveggja mánaða verkefni við heildarendurskoðun á upplýsingagjöf Stjórnarráðsins.
„Áformað er að taka til heildarendurskoðunar stefnu Stjórnarráðsins í upplýsinga- og samskiptamálum. Er þá horft til þess að almenningur, þar með talin fyrirtæki, stofnanir og aðrir lögaðilar, fái aðgengilegar og skýrar upplýsingar um réttindi sín og skyldur og njóti nauðsynlegra leiðbeininga. Um leið verði leitast við að auka gæði upplýsinga og efla samskipti við almenning með aukinni samvinnu, samhæfingu og skilvirkni innan Stjórnarráðsins.
Í því starfi verði horft til framsetningar upplýsinga á vef Stjórnarráðsins og einstakra ráðuneyta og fyrirkomulag almennrar upplýsingagjafar endurskoðað. Jafnframt verði horft til samfélagsmiðla og annara miðla sem gegna vaxandi hlutverki í upplýsingagjöf í dag. Sérstaklega verði reynt að ná betur til ungs fólks. Slík nálgun er í samræmi við umfjöllun á þessu sviði á vettvangi Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) þar sem meðal annars hefur verið litið til Eistlands sem fyrirmyndar að því er varðar upplýsingagjöf og rafræna stjórnsýslu.
Stjórnarráðið vill þannig efla upplýsingagjöf og skerpa á áherslum í samskiptum við almenning, fjölmiðla og hagsmunaaðila í atvinnulífinu. Í því skyni verði horft til þess hvernig megi breyta og bæta skipulag og almennt vinnulag við upplýsingamiðlun frá því sem verið hefur,“ segir í tilkynningu.
Þá kemur fram, að til að stýra framangreindri heildarendurskoðun hafi Hrannar Pétursson verið ráðinn til forsætisráðuneytisins í tvo mánuði. Hrannar hefur fjölbreytta reynslu af samskipta- og upplýsingamálum, síðast sem framkvæmdastjóri samskiptasviðs hjá Vodafone.