Björguðu fólki af Kili í nótt

Kjalvegur er ekki fær fólksbílum yfir vetrartímann.
Kjalvegur er ekki fær fólksbílum yfir vetrartímann.

Björgunarfélagið Blanda á Blönduósi var kallað út rétt rúmlega þrjú í nótt vegna bíls sem var fastur á Kjalvegi rétt norðan við Hveravelli. Lélegt samband var við ferðalangana, tvo karlmenn frá Sviss, og var í fyrstu ekki vitað um nákvæma staðsetningu eða hvað hefði komið fyrir.

Samkvæmt upplýsingum frá Blöndu höfðu ferðalangarnir fest bílaleigubifreið sína, fólksbíl af gerðinni Renult Megane og alls ekkert útbúinn til hálendisferða.

Mennirnir voru á leið til Reykjavíkur frá Akureyri og vissu ekki betur en hægt væri að fara Kjalveg að vetri til en Kjalvegur er lokaður yfir vetrartímann líkt og aðrir hálendisvegir.

Björgunarleiðangurinn fram á Kjalveg gekk vel hjá Blöndu en á heimleiðinni skall á með stórhríð og engu skyggni og gekk hægt en örugglega að koma þeim til byggða. Það var nú um 8:30 sem björgunarsveitarmenn komust á Blönduós og segja ferðamennina þakkláta fyrir svo giftusamlega aðstoð/björgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert