Dæmigert vetrarveður í kortunum

Éljagangur og suðvestan átt verða áberandi í vikunni samkvæmt spá …
Éljagangur og suðvestan átt verða áberandi í vikunni samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Veðurfræðingur við Veðurstofu Íslands segir að óveðrið sem stóð yfir í gær og í nótt virðist hafa gengið eftir áætlun og verið nokkuð svipað og Veðurstofan spáði.

„Við erum ánægð með störf fjölmiðla um helgina. Það virðist hafa tekist að vekja athygli á veðrinu og fólk var viðbúið, sem bjargar miklu,“ segir Helga Ívarsdóttir veðurfræðingur í samtali við mbl.is.

Helga segir að veðrið í gær hafi þó ekki verið eins slæmt og óveðrið fræga 1991 sem sagt var frá í gær. Hafi það verið mun verra og haft meiri áhrif.

Hún segir að í vikunni verði suðvestanátt og éljagangur í aðalhlutverki.

„Í dag erum við í ákveðinni suðvestanátt og éljum. Í fyrramálið og framundir hádegi er heldur hlýrra loft að koma hingað með slyddu og rigningu sunnan- og vestanlands en úrkomulítið verður á Norð- og Austurlandi. Seinni partinn kólnar síðan aftur og það fer yfir í él,“ segir Helga og bætir við að einnig fari heldur að bæta í vind seinni partinn á morgun. 

„Það gæti farið upp í storm við suðausturströndina og jafnvel á annesjum suðvestan til. Þetta er svona dæmigert vetrarveður.“

Að sögn Helgu verður éljagangur á landinu áfram fram eftir viku. Seint á föstudag kemur þó inn vaxandi suðaustanátt og það hlýnar. 

„Það fer yfir frostmark hér á höfuðborgarsvæðinu og það verður slydda, jafnvel rigning. Það verður þó skammvinnt því strax um helgina verður komið aftur suðvestan og él.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert