Eldingar og drunur á Hvanneyri

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Miklar drunur kváðu við á Hvanneyri rétt fyrir hádegi, í kjölfar tveggja eldinga sem lýstu upp himininn. Fleiri eldingar hafa mælst á landinu í veðrinu sem nú gengur yfir.

„Ég var nú svo heppinn að ég sá þær báðar,“ segir Sigurður Jón Kristmundsson, bóndi og fiskeldisstarfsmaður, sem stundar nám á Hvanneyri. „Það kom mikill blossi á himninum sem varði í kannski hálfa sekúndu og svo bara nokkrum sekúndum síðar komu alveg ægilegar drunur og það notraði allt. Þær entust í kannski 10 sekúndur. Og kannski tveimur mínútum síðar kom annar blossi, svipaður en aðeins styttri held ég, og svo komu sömu drunurnar. Og þetta var bara yfir byggðinni. Bara mjög miklar og áberandi eldingar með miklum drunum, sem fóru örugglega ekki fram hjá neinum á svæðinu,“ segir Sigurður.

Að sögn Sigurðar fylgdi eldingunum haglél, sem stóð yfir í nokkrar mínútur, en síðan birti til. Nú er aftur haglél á svæðinu.

Hvað varðar óviðrið sem gekk yfir í gær og í nótt, sváfu íbúar Hvanneyris þegar lætin voru mest.

„Við heyrðum ægilegan dynk um 2 eða 3 leitið og svo leit ég út um gluggann í morgun og þá sá ég að það var einhver bekkur og gasgrill í spón þarna fyrir utan hjá okkur,“ segir Sigurður. „Það var greinilega alveg hrikalegt veður, því það var drasl bara út um allan garð og lok á einhverjum sandkassa í maski upp við vegg. Og allt í drasli og rusli,“ segir hann.

Gætu orðið fleiri

Að sögn vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, Haraldar Eiríkssonar, má gera ráð fyrir eldingum í veðri á borð við það sem nú gengur yfir.

„Já, þetta er suðvestan áttin. Það gengur á með éljum og þetta eru svona dálítið myndarlegir éljaklakkar sem ganga yfir og það hafa víðar verið mældar eldingar, alla vegna hérna sunnan og vestanlands, og þetta hefur náð eitthvað inn á landið,“ segir Haraldur.

Hann segir að ekki sé útilokað að vart verði fleiri eldinga á morgun. „Á morgun er útlit fyrir að verði slydda og rigning á þessu svæði en fari aftur í él seinnipartinn og þá er þetta alltaf möguleiki,“ segir Haraldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert