Hættulegar vindhviður fyrir norðan

Það er enn bálhvasst fyrir norðan og ferðafólk beðið um …
Það er enn bálhvasst fyrir norðan og ferðafólk beðið um að fylgjast vel með upplýsingum af veðri og færð. mbl.is

Búast má við hættulegum vindhviðum norðan og austan undir fjöllum á norðanverðu landinu (jafnvel yfir 40 m/s) fram að hádegi, að því er segir í viðvörun frá veðurfræðingum Veðurstofu Íslands. Samkvæmt sjálfvirkum mælum Vegagerðarinnar slær í 50 metra á sekúndu í verstu hviðum á Siglufjarðarvegi og hátt í 50 metra við Stafá. Í Ólafsfjarðarmúla er einnig bálhvasst og fyllsta ástæða til að vara fólk við að vera á ferðinni.

Það hefur kólnað í veðri og víða hálka og snjóföl. Í Reykjavík var byrjað að salta götur eldsnemma í morgun og eru saltbílar enn á ferðinni þar.

Suðvestan 10-18 m/s, en 15-23 N-lands fram að hádegi. Víða él, en úrkomulítið NA- og A-til. Hiti um eða undir frostmarki. Suðvestan 13-20 m/s með rigningu eða slyddu á morgun, en 15-23 síðdegis SA-til. Hiti 1 til 8 stig. Él V-lands eftir hádegi og kólnandi veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert