Hefur áhrif á 3-4 þúsund farþega

Icelandair
Icelandair Sigurður Bogi Sævarsson

Óveðrið í gær og í nótt hefur áhrif á ferðalög þrjú til fjögur þúsund farþega Icelandair, segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi flugfélagsins. 

Átta flugferðum var aflýst í gær og sex ferðum frá Norður-Ameríku var frestað þannig að þær vélar sem áttu að lenda snemma í morgun lenda um hádegið. Þetta hefur áhrif á Evrópuflug Icelandair en sex flugferðum til Evrópu, sem átti að fara snemma í morgun, seinkar sem því nemur og fara þær vélar í loftið um og eftir klukkan 13. Um er að ræða flug til Ósló, Stokkhólms, Helsinki, Glasgow, Frankfurt og Manchester. 

Vélarnar eru að koma frá Toronto, Washington, Denver, Boston, New York og Seattle.

Að sögn Guðjóns má því búast við seinkunum á millilandaflugi í allan dag en hann á von á því að á morgun verði allt flug félagsins komið í eðlilegt horf á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert