Safna milljón fyrir Mæðrastyrksnefnd

Brynjólfur Löve Mogensson.
Brynjólfur Löve Mogensson. Ljósmynd/Facebook

„Hugmyndin var að gera líf margra fjölskyldna bærilegra um jólin og setja bros á andlit fullt af börnum,“ segir Brynjólfur Löve Mogensson, einn meðlima facebooksamfélagsins Sjomla tips sem hefur fagnað miklum vinsældum í netheimum undanfarnar vikur. Brynjólfur er forsprakki söfnunarátaks til styrktar Mæðrastyrksnefnd, sem sett var af stað hjá hópnum fyrir fimm dögum. 

Brynjólfur segir hugmyndina hafa kviknað þegar hann skoðaði umræður „sjomlanna“ í hópnum, þar sem þeir veltu því fyrir sér hvað skyldi gefa kærustunum sínum í jólagjöf. „Þá fór ég að hugsa til þess að einhvers staðar þarna úti væri einhver sem ekki fengi jólagjöf, og þá fékk ég strax hugmyndina. Daginn eftir fór ég í Landsbankann og stofnaði reikninginn.

Söfnuðu 150 þúsund á fyrsta degi

Brynjólfur segir Mæðrastyrksnefnd hafa komið fyrst í hugann vegna alls þess góða sem hann hafði heyrt af starfinu hjá þeim og vegna þess hve mikil umsvif eru hjá þeim í kringum jólin. „Svo hefur maður heyrt að þær nái ekki að anna eftirspurn. Því fannst mér það vera vel við hæfi að leggja þeim lið.“

Undirtektirnar leyndu sér ekki en fyrstu millifærslur bárust nokkrum mínútum eftir að Brynjólfur deildi hugmyndinni með félögum sínum í hópnum. „Söfnunin hófst klukkan tvö að degi til og klukkan níu um kvöldið vorum við komnir í 150 þúsund krónur.“

Hafa nú safnað yfir hálfri milljón

Nú, þegar söfnunin hefur staðið yfir í fimm daga, hafa sjomlarnir safnað yfir hálfri milljón króna og hafa framlögin verið allt frá 100 krónum upp í 25 þúsund krónur að sögn Brynjólfs.

Brynjólfur segir markmið sjomlanna vera að komast upp í eina milljón króna. „Fyrsta markmiðið var 300 þúsund krónur, svo var það sett upp í hálfa milljón. Og eftir að við náðum henni þá setjum við markið á eina milljón. Við erum ungir drengir með háleit markmið og teljum okkur geta náð ansi nálægt milljóninni.“

Tóku sjomlana sér til fyrirmyndar

Í kjölfarið frétti Agnes Ósk Marzellíusardóttir, meðlimur facebooksamfélagsins Beauty tips, af framtaki sjomlanna og ákvað hún því að setja af stað sambærilegt átak í sínum hópi. Meðlimir Beauty tips hafa nú safnað yfir 350 þúsund krónum og nálgast samanlagður ágóði hópanna því eina milljón króna.

Við vitum til þess að margir eiga erfitt með að ná endum saman og þá sérstaklega í kringum jólin. Mæðrastyrksnefnd vinnur gífurlega mikilvæga vinnu og mér þykir það virkilega flott málefni til að styðja fyrir jólin,“ skrifaði Agnes til hópsins.

Fyllist stolti yfir kærleiknum og auðmýktinni

Hóparnir tveir ganga út á það að vera vettvangur þar sem hægt er að spyrja spurninga og fá ráð við ýmsum vandamálum eða hugleiðingum. Sjomla tips, sem telur um 6.500 meðlimi, er fyrst og fremst hugsaður fyrir stráka og karla og Beauty tips, sem telur yfir 13 þúsund meðlimi, er fyrst og fremst hugsaður fyrir stelpur eða konur.

„Þarna inni er allt milli himins og jarðar, misgáfulegt, en það er einmitt það sem gefur þessu samfélagi lit. Hins vegar er kærleikurinn sem er þarna ótrúlegur og auðmýktin algjör og ég fyllist bara stolti að sjá hversu góða menn þetta samfélag okkar hefur að geyma,“ segir Brynjólfur að lokum. 

Beauty Tips hópurinn safnar 800.000 kr.

Starfsmenn Mæðrastyrksnefndar pakka niður í matarpoka fyrir úthlutanir fyrir jólin.
Starfsmenn Mæðrastyrksnefndar pakka niður í matarpoka fyrir úthlutanir fyrir jólin. Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert