Stúlkurnar komnar til Íslands

Kókaínið, sem var um 89% sterkt, var vandlega falið inni …
Kókaínið, sem var um 89% sterkt, var vandlega falið inni í fóðri tösku. Ljósmynd/celnisprava.cz

Tvær íslenskar stúlkur sem hlutu þunga dóma fyrir að smygla fíkniefnum til Tékklands árið 2012 eru komnar til landsins. Samkvæmt heimildum mbl.is komu þær til landsins á föstudag og hófu þær þegar afplánun.

Stúlkurnar, sem eru tvítugar, voru upphaflega dæmdar í sjö og hálfs árs og sjö ára fangelsi hinn 13. nóvember í fyrra. Áfrýjunardómstóll mildaði hins vegar dómana í fjögur og hálft ár hvor í febrúar á þessu ári. Framsalsbeiðni var lögð fram í sumar.

„Ég get fullyrt það að íslensk stjórnvöld, hvort sem það er utanríkisþjónustan eða innanríkisráðuneytið, munu gera allt sem þau mögulega geta til þess þá að stúlkurnar geti þá verið hér heima til að afplána sinn dóm sem þær kunna að fá,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is hinn 13. nóvember í fyrra, daginn sem upphaflegi dómurinn féll. 

Áður en stúlkurnar komu til Íslands afplánuðu þær dóma sína í fangelsi utan við Prag, höfuðborg Tékklands, en þar unnu þær í súkkulaðiverksmiðju.

Stúlkurnar voru handteknar á Vaclav Havel-flugvellinum í Prag hinn 7. nóvember 2012 eftir að kókaín fannst í fórum þeirra. Þær komu til landsins frá Sao Paulo í Brasilíu, en millilentu í München í Þýskalandi.

Kókaínið, sem var um 89% sterkt, var vandlega falið inni í fóðri tösku og kom fram í fyrstu fréttum að handtakan væri afrakstur samvinnu tékkneskra og þýskra yfirvalda. Málið var einnig unnið með íslenskum og dönskum lögregluyfirvöldum.

Stúlkurnar þurfa að afplána tvo þriðju hluta dómsins, þannig að búast má við að þær geti losnað úr fangelsi eftir um hálft ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert