Vindur að ganga niður

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Það er éljagangur á Suðurlandi og á Reykjanesi, og víða hálkublettir. Hálkublettir eru einnig á köflum á Vesturlandi, einkum á heiðum, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar.

Vindur er mjög að ganga niður á Vestfjörðum. Það er víðast autt á láglendi á sunnanverðum fjörðunum en hálka eða snjór á fjallvegum. Hrafnseyrarheiði er ófær og Dynjandisheiði þungfær. Á norðanverðum Vestfjörðum er víðast hvar snjór. Þæfingsfærð er á Steingrímsfjarðarheiði en vonast er til að hreinsun geti hafist fljótlega.

Vegir að mestu auðir í Húnavatnssýslum og Skagafirði þótt hálkublettir séu á köflum. Enn er hvasst á Siglufjarðarvegi. Hálka er á Öxnadalsheiði. Það éljar í Þingeyjarsýslum og þar eru sumstaðar hálkublettir.

Á Austurlandi eru hálkublettir á stöku fjallvegum en annars greiðfært þar til kemur í Öræfin en snjór og hálka er úr Öræfum vestur á Mýrdalssand.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert