„Ég spurði Rögnu hvort það væri að líða yfir hana. „Ég held það bara, svei mér þá!“ sagði hún. Henni varð svo mikið um þetta símtal,“ segir kona um áttrætt í Reykjavík sem óskar nafnleyndar um samtal sitt við Rögnu Erlendsdóttur um hádegisbilið í gær.
Konan, sem býr nú á elliheimili, las viðtal við Rögnu, einstæða tveggja barna móður sem er komin á götuna, í Morgunblaðinu í gær.
Fram kom í viðtalinu við Rögnu að tveir ókunnugir einstaklingar hefðu haft samband við hana og boðið henni og tveimur dætrum hennar að dvelja í íbúðum í þeirra eigu án endurgjalds. Buðu þeir henni íbúðirnar eftir að hafa lesið viðtal við Rögnu í Morgunblaðinu í fyrradag.
Ragna kom sér fyrir í annarri íbúðinni sem er í Vesturbænum í gær. Hún hafði þá dvalið á gistiheimili eina nótt eftir að hafa misst húsnæði sem hún hafði til bráðabirgða. Konan fann til með Rögnu, fékk símanúmerið hjá Morgunblaðinu og setti svo sig í samband við hana og bauð hálfa milljón króna í styrk.
„Ég er búin að leggja inn hjá henni. Ég er ekki að geyma það til morguns sem er hægt að gera í dag,“ segir konan sem vill ekki koma fram undir nafni. Hún vann nýverið tugi milljóna í lottóinu.
Það leynir sér ekki þegar rætt er við konuna að lífið brosir við henni. Hún hlær og gerir að gamni sínu meðan á samtalinu stendur. Henni þykir miður að ekki sé hægt að gera meira fyrir fólk í sömu stöðu og Ragna.
„Ég er eiginlega að þakka fyrir að ég hef aldrei þurft að standa í þessum sporum. Ég var svo ánægð þegar ég var búin að fara í bankann að millifæra þetta. Það var eitt af því dásamlegasta sem ég hef gert um dagana. Það er sælt að þiggja en líka sælt að gefa,“ segir konan sem var að strauja gardínur þegar blaðamaður sló á þráðinn.