„Lætin voru gjörsamlega yfirgengileg,“ sagði Pétur Einarsson, lögmaður á Selá við Hauganes í Eyjafirði, um fárviðrið sem gekk þar yfir aðfaranótt mánudags. Steinsteypt hlaða og fjárhús á Selá splundruðust og hurfu að miklu leyti út í buskann. Engin slys urðu á fólki. „Það var Guðs lán að þetta lenti ekki á íbúðarhúsinu þar sem við hjónin vorum.“
Húsin sem splundruðust voru byggð 1950. Hlaðan var um 150 fermetrar og fjárhúsið um hundrað fermetrar. Í hlöðunni var sex metra lofthæð. Þar voru geymd ýmis verðmæti sem nú liggja undir veggjunum.
„Það er eins og hlaðan hafi tekist á loft og steinsteyptir veggirnir fallið niður. Þakið er hreinlega horfið! Það er smá timburrusl og járnplötur í norðaustur frá Selá. Það er undarlegt að sjá hvernig húsið hefur losnað af undirstöðunum, færst til og fallið svo niður. Þetta eru fleiri, fleiri tonn af steinsteypu.“
En hvernig var að vera inni í bænum í veðrinu?
„Maður var hræddur um það á tímabili að sjálft íbúðarhúsið gæti fokið,“ sagði Pétur. Íbúðarhúsið er steinhús og það nötraði í veðurofsanum. Viðbyggt er gamalt fjós og hlaða. Þessar byggingar sluppu við skemmdir.
„Það var hérna gamalt reykhús sem stóð ekki langt frá bænum. Það hvarf veg allrar veraldar. Þetta var mikið fárviðri,“ sagði Pétur. Mesti hvellurinn stóð frá miðnætti til klukkan átta á mánudagsmorgun. „Þetta var skrítið veður. Það var ekki samfelldur vindur heldur rosalegir hvellir og nánast logn á milli. Ég er að verða sjötugur og hef aldrei upplifað svona veðurfar á Íslandi áður. Ég hef upplifað fárviðri en ekki svona veður. Þetta var eins og skothríð. Ákaflega undarlegt veður.“
Pétur sagði að það hefði verið mikið lán í óláni að ekkert af fjúkandi brakinu hefði lent á húsum á Hauganesi. Í gær voru björgunarsveitarmenn að taka saman járnplötur og annað sem hafði fokið. Sumar þakplöturnar höfðu stungist djúpt í jörð og Pétur barði upp gikkfastan timburbút sem hafði stungist um 40 sentimetra niður í svörðinn. Hann sagði að túnið væri allt upptætt eftir drasl sem hefði tekið þar niðri á leið sinni til sjávar. Heyrúllur voru á túni á næsta bæ. Töluvert af þeim endaði niðri í fjöru eða úti í sjó.