Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir yfir vonbrigðum með framkomnar tillögur stjórnarmeirihlutans við aðra umræðu fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2015. Lítið er komið til móts við þá miklu og hörðu gagnrýni sem miðstjórn Alþýðusambandsins og aðildarsamtök ASÍ settu fram í haust. Það eru því kaldar kveðjur sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi sendir launafólki í aðdraganda kjarasamninga. „Kaldar kveðjur ríkisstjórnarinnar felast m.a. í“ eftirtöldu að mati miðstjórnar ASÍ:
- hækkun á matarskatti sem kemur verst við þá tekjulægri.
- styttingu á bótatíma atvinnulausra en þannig er ráðist á þá sem veikast standa á vinnumarkaði.
- ríkisvaldið kemur sér undan því að greiða umsamið framlag til Starfsendurhæfingarsjóðs. Þannig er dregið úr möguleikum fólks til þess að komast aftur á vinnumarkað og til virkrar þátttöku í samfélaginu eftir erfið veikindi eða slys.
- skerðingu og síðan brottfalli á framlögum til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða. Þetta veldur því að skerða þarf lífeyrisgreiðslur til þeirra sem eru á almennum vinnumarkaði og þá mest hjá sjóðum verkamanna og sjómanna sem búa við mesta örorku.
- kostnaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu er aukinn.
- engum auknum framlögum til úrbóta í húsnæðismálum, hvorki í almenna húsnæðiskerfinu né til uppbyggingar félagslegs húsnæðis.
- verulega skertum möguleikum fólks á vinnumarkaði til að sækja nám í framhaldsskólum. Þá er framlag til framhaldsfræðslu fyrir fólk með litla formlega menntun skert umtalsvert og ekki er fallið frá skerðingum á framlögum til iðn- og verknáms.
„Það stefnir í erfiðari kjarasamninga á almennum vinnumarkaði en um langan tíma. Sú stefna stjórnvalda sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu gerir stöðuna enn erfiðari. Laun munu þurfa að hækka sérstaklega til þess að mæta auknu álögum s.s. á matvæli og heilbrigðisþjónustu. Þær launahækkanir þurfa að koma til viðbótar nauðsynlegum launaleiðréttingum. Launafólk að þarf því að búa sig undir hörð átök á vinnumarkaði,“ segir í ályktun frá miðstjórn ASÍ.