Bjarni ánægður með niðurstöðuna

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ræðir við fjölmiðla í dag.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ræðir við fjölmiðla í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við áttum núna fund þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hér í Valhöll þar sem ég bar upp þá tillögu að Ólöf Nordal, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, tæki sæti innanríkisráðherra og það var samþykkt. Og hún mun þá mæta á ríkisráðfund klukkan eitt í dag og í innanríkisráðuneytið klukkan þrjú til þess að taka við lyklunum.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, við fjölmiðla í kjölfar fundar þingflokks sjálfstæðismanna þar sem hann tilkynnti að Ólöf Nordal tæki við embætti innanríkisráðherra af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. „Ég er gríðarlega ánægður með þessa niðurstöðu. Við höfum fengið afskaplega hæfa konu, einn af okkur sjálfstæðismönnum, til þess að koma í ráðuneytið og tel að af þessu muni ríkisstjórnin fá aukinn styrk.“

Spurður hvers vegna hann hafi ákveðið að fara út fyrir þingflokkinn sagði Bjarni eðlilegt að spurt væri að því. „Þetta er vandasöm ákvörðun sem ég stóð frammi fyrir. Fyrst og fremst vildi ég fá einstaklings sem nyti óskoraðs trausts okkar sjálfstæðismanna. Ég lít á hana sem eina af okkur enda var hún hér á þingi með okkur fram á síðasta ár. Hún hefur reynslu úr ráðuneytinu, hún er lögfræðimenntuð, býr hér í Reykjavík. Reykvíkingar hafa sem sagt í sjálfu sér innan raða Sjálfstæðisflokksins einungis í dag einn ráðherra í þessum tveimur stóru kjördæmum og það er hægt að halda því fram að hún sem Reykvíkingur geti verið þeirra fulltrúi við þessar aðstæður.“

Margir þingmannanna komu til greina

Bjarni sagði að þegar allt væri saman tekið nyti Ólöf einfaldlega fulls trausts hans til þess að taka að sér embættið. Spurður hvort hann treysti þá ekki þingmönnum sjálfstæðismanna sem nefndir hefðu verið sem mögulegir ráðherrar. Bjarni svaraði því til að margir af þingmönnunum hafi komið mjög til álita. „Það hins vegar er mín ákvörðun að koma með tillögu sem ég tel, að teknu tilliti til allra sjónarmiða, farnist best og ég er mjög ánægður með þá niðurstöðu sem ég hef komist að og ég hef fengið svigrúm hjá þingflokknum til að fylgja henni eftir.“

Spurður út í veikindi Ólafar hafi sett einhver strik í reikninginn, en hún greindist með illkynja krabbameinsæxli í sumar og lauk lyfjameðferð nýverið vegna þess, sagði Bjarni: „Það er það sem er nú ágægjulegast í þessu er að Ólöf hefur tekist á við veikindin og er útskrifuð úr þeirri meðferð sem hún hefur tekist á við og lítur vel út, er hress, treystir sér og hún hefur stuðning sinna nánustu til þess að taka verkefnið að sér. Þannig að það er nú kannski bara sérlega ánægjulegt í þessu að með þessu hefst nýr kafli hjá henni, eftir veikindakaflann.“

Bjarni var einnig spurður hvort stefnan væri sú að Ólöf yrði ráðherra út kjörtímabilið og svaraði hann á þessa leið: „Við erum ekki að taka ákvörðun um framtíðina í sjálfu sér nema hvað það snertir að núna kemur hún inn í innanríkisráðuneytið.“ Þá sagði hann einnig aðspurður að dómsmálin færu aftur til innanríkisráðherra í dag.“

Frétt mbl.is: Bjartsýn gagnvart framtíðinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert