Hanna Birna mætti ekki

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mætti ekki á ríkisráðsfund sem hófst á Bessastöðum klukkan 13. Á fundinum verða ráðherraskipti staðfest en eins og fram hefur komið mun Ólöf Nordal taka við ráðherraembætti af Hönnu Birnu.

Ólöf tekur við lyklunum að ráðuneytinu klukkan 15 í dag og þar sem Hanna Birna mætti ekki á ríkisráðsfundinn verður að teljast ólíklegt að hún mæti í ráðuneytið til þess að afhenda Ólöfu lyklana. Eflaust kemur það þá í hlut ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytisins.

Uppfært klukkan 14.48:

Hanna Birna Kristjánsdóttir var ekki boðuð á ríkisráðsfundinn og mætti þar af leiðandi ekki. Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt í samræmi við það en hún var: Hanna Birna mætti ekki.

Þá hefur mbl.is fengið staðfest að Hanna Birna muni afhenda Ólöfu Nordal lyklana að innanríkisráðuneytinu síðar í dag. Áður mun hins vegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og dómsmálaráðherra, afhenda Ólöfu lykla sína að innanríkisráðuneytinu.

Uppfært klukkan 15.54:

Sigurður Már Jónsson upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar vill koma því á framfæri að Hanna Birna Kristjánsdóttir var eins og aðrir ráðherrar boðuð á ríkisráðsfundinn, með bréfi og tölvupósti. Í samtali Hönnu Birnu og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra eftir það kom hins vegar fram að formlega kallaði ekkert á að hún væri á fundinum. Eftir samtalið hafi Hanna Birna tekið þá ákvörðun að mæta ekki á fundinn.

Í ljósi þessara nýjustu upplýsinga hefur fyrirsögn fréttarinnar verið breytt í upphaflega útgáfu. Hún bar um stund fyrirsögnina: Hanna Birna ekki boðuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert