Líst vel á nýja liðsmanninn

„Þetta leggst vel í mig. Ég þekki Ólöfu auðvitað bara að góðu einu og treysti henni til allra góðra verka þannig að það verður gott að fá hana aftur í hópinn. Við komum inn á þing á sama ári og höfum fylgst lengi að og það er gott að sjá að hún hefur náð þessum góða bata í baráttunni við það mein sem hún hefur þurft að kljást við og gott að fá hana í þessa baráttu með okkur.“

Þetta sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra í samtali við mbl.is í dag eftir ríkisráðsfund á Bessastöðum þar sem Ólöf Nordal tók með formlegum hætti sæti í ríkisstjórninni sem innanríkisráðherra í stað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Mbl.is innti einnig Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra eftir því hvernig nýr ráðherra legðist i hann:

„Mjög vel. Við erum að fá afar flotta og hæfa konu inn í ríkisstjórnina. Við höfum unnið lengi með Ólöfu og hún er náttúrulega bara mjög góður kostur og ég held að þetta eigi eftir að styrkja okkur.“ Samflokksmaður Gunnars í Framsóknarflokknum Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra tók í hliðstæðan streng.

„Mér líst bara mjög vel á þetta. Virkilega öflugur liðsmaður og gott að vinna með henni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka