„Ég óska að sjálfsögðu nýrri manneskju til hamingju með embættið og Ólöf er auðvitað öflug manneskja þannig að ég efast ekkert um að hún geti gert þetta vel. Þetta kom svolítið á óvart. Menn hafa aðallega verið með getgátur um það hver úr þingflokknum þetta yrði. Þannig að þetta svona ekki kannski eitthvað sem flestir reiknuðu með.“
Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum hans við þeirri ákvörðun að Ólöf Nordal taki við sem innanríkisráðherra í stað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. „Ég býst við að einhverjir séu súrir sem höfðu gert sér góðar vonir innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Það er alltaf viðkvæmt þegar sótt er fólk út fyrir þingflokkana í svona trúnaðarstörf en Ólöf er auðvitað fyrrverandi þingmaður og varaformaður flokksins þannig að Bjarni hefur svo sem ýmis rök fyrir þessari ráðstöfun.“
Steingrímur segir að það sem mestu máli skipti hins vegar þegar upp sé staðið að í störf sem þetta veljist traustar og góðar manneskjur sem séu vel færar til þess að sinna starfinu. „En að lokum er náttúrulega að minnsta kosti eitt fagnaðarefni og það er að innanríkisráðuneytið sé loksins aftur að fá ráðherra og vonandi að komast í starfhæft ástand að nýju.“ Þá segist hann fagna því að dómsmálin séu aftur færð til innanríkisráðherra. „Ég hef ekki verið hrifinn af þessum tilburðum ríkisstjórnarinnar að fara að skipta aftur upp ráðuneytunum.“