„Þetta kemur á óvart“

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, í morgun.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, í morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég bara óska henni velfarnaðar. Þetta kemur á óvart. Það voru margar vangaveltur um þetta. Ég hefði ekki veðjað á þetta en mér líst bara vel á þetta. Ég held að Ólöf sé vel að þessu komin. En þetta kemur á óvart vegna þess að hún hafði stigið út úr pólitík og nú stígur hún aftur inn og það er bara gaman að því og eins og ég segi, ég óska henni bara velfarnaðar í krefjandi starfi.“

Þetta segir Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við þeirri ákvörðun að Ólöf Nordal verði nýr innanríkisráðherra í stað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Spurður hvað honum finnist um að skipa ráðherra sem ekki á sæti á Alþingi segist Guðmundur alltaf vera svolítið hrifinn af þeirri hugmynd. 

„Það að ná í fólk utan úr þjóðfélaginu með sérþekkingu til að takast á við verkefni í ráðuneytum en hún er samt svolítið á mörkunum. Hún er ekki alveg utan við þetta. Hún er náttúrulega bæði fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður þannig að hún er svona blanda af hvoru tveggja,“ segir hann. Spurður hvað honum finnist um að færa dómsmálin aftur undir innanríkisráðherra segist hann vera ánægður með þá ákvörðun. Þannig eigi það að vera.

„Mér þykja ágætar þessar breytingar sem voru gerðar á ráðuneytunum á sínum tíma og mér finnst að dómsmálin eigi heima þarna. Mér finnst að komið hafi ákveðið rask á stjórnsýsluna þegar dómsmálin voru tekin frá innanríkisráðherra og færð undir forsætisráðherra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert