Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, hefur lagt fram frumvarp um breytingu á almennum hegningarlögum þess efnis að bann verði lagt við svokölluðu hefndarklámi.
Samkvæmt frumvarpinu yrðu eftirfarandi ákvæði sett inn í lögin:
Á eftir 210. gr. b kæmi ný grein, 210. gr. c.
„Hver sem flytur inn, aflar sér eða öðrum, birtir eða dreifir myndefni, ljósmyndum, kvikmyndum eða sambærilegum hlutum þar sem einstaklingur er sýndur nakinn eða á kynferðislegan hátt án samþykkis þess sem á myndunum er, skal sæta fangelsi allt að 1 ári en allt að 2 árum ef brot er stórfellt.“
Og á eftir 229. gr. laganna kæmi ný grein, 229. gr. a.
„Hver sem birtir eða dreifir myndefni, ljósmyndum, kvikmyndum eða sambærilegum hlutum og birting eða dreifing er til þess fallin að valda þolanda tjóni eða vanlíðan eða er lítilsvirðandi fyrir þolandann skal sæta fangelsi allt að 1 ári en allt að 2 árum ef brot er stórfellt.“
Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. að stór hluti fórnarlamba hefndarkláms sé ungt fólk. Hefndarklám dragi nafn sitt af því að „myndefninu er stundum dreift í hefndarskyni að loknu ástarsambandi en jafnframt getur verið um að ræða dreifingu myndefnis sem einstaklingur hefur sent í góðri trú.“
Þar kemur einnig fram að ekki séu til staðar skýr lagaákvæði sem gera hefndarklám refsivert. Með frumvarpinu sé lagt til að slíkum ákvæðum verði bætt við hegningarlögin og allur vafi tekinn af um alvarleika brota af þessu tagi.
„Síðustu missiri hefur mikil umræða verið um hefndarklám, bæði hér heima og erlendis. Í apríl sl. birtist m.a. frétt þess efnis að á erlendri spjallsíðu væru íslenskir karlmenn að skiptast á myndum af fáklæddum íslenskum stúlkum. Þær yngstu væru á fjórtánda aldursári og fram kom að hundruð mynda af íslenskum stúlkum væru komnar inn á spjallsíðuna. Þá virðist raunin vera sú að konum í áberandi stöðum í samfélaginu, t.d. í kvikmyndaleik, hefur verið að því er virðist kerfisbundið ógnað með dreifingu á myndefni af þeim sem er til þess fallið að lítillækka og kúga. Alheimssamfélagið hefur brugðist við, umræðan hefur verið mikil og niðurstaðan er sú að í raun í sé um kynferðisafbrot að ræða,“ segir m.a. í greinargerðinni.
Aðrir flutningsmenn frumvarpsins eru Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímson, Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson og Róbert Marshall, þingmenn Bjartrar framtíðar.